| Sf. Gutt

Liverpool lagði meistarana!

Liverpool vann gríðarlega mikilvægan 3:1 sigur á Englandsmeisturum og tvöföldum bikarmeisturum Manchester City á Anfield. Liverpool leiðir deildina nú þegar landsleikjahlé fer í hönd. 

Andrúmsloftið á Anfield Road er oft magnað og það vantaði ekkert upp á það fyrir leikinn. Þjóðsöngurinn var sunginn af miklum krafti. Jürgen Klopp var búinn að biðja alla, meira að segja pylsusalana á Anfield, að sýna sitt besta og það vantaði ekkert upp á að áhorfendur legðu sig fram.

Eina skiptið sem þögn myndaðist á Anfield var þegar fallinna í stríðsátökum var minnst með einnar mínútu þögn. Hefð er fyrir því að slíkt sé gert helgina sem er næst vopnahlésdeginuum 11. nóvember. 

Manchester City byrjaði af miklum krafti og Liverpool komst ekki fram yfir miðju fyrstu fjórar mínútur leiksins. Á 6. mínútu reyndi Bernardo Silva að brjótast að marki Liverpool. Boltinn rakst í hendi hans og fór þaðan í hendina á Trent Alexander-Arnold. Leikmenn Manchester City vildu fá víti en dómarinn gaf merki um að ekkert væri athugavert. Liverpool geystist fram í sókn. Sadio Mané fór fram vinstra megin og gaf fyrir. Leikmaður City kom boltanum út úr vítateignum en ekki langt. Boltinn fór beint á Fabinho Taverez sem stillti miðið og þrykkti boltanum að marki af um 30 metra færi. Boltinn söng í netinu og gríðarlegur fögnuður braust út. Rétt rúmlega 20 sekúndur liðu frá því boltinn fór í hendina á Trent og þar Fabinho skoraði. Ótrúlegt!

Leikmenn Manchester City mótmætlu markinu harðlega en þó svo boltinn hefði farið í hendi Trent þá kom hann þangað af hendi Bernardo. Það hafði því átt að dæma á fyrstu hendina! Augljóst mál!

Tveimur mínútum seinna átti Raheem Sterling skalla rétt framhjá eftir aukaspyrnu frá vinstri. Á 13. mínútu sótti Liverpool. Trent lék fram hægra megin. Rétt aftan við miðju sendi hann frábæra sendingu þvert út til vinstri á Andrew Robertson. Skotinn lék fram yfir miðju og spyrnti knettinum svo inn á vítateiginn. Boltinn skoppaði einu sinni áður en hann rataði á Mohamed Salah sem skallaði örugglega út í vinstra hornið. Glæsileg sókn og afgreiðsla Mohamed í hæsta gæðaflokki. Tvær sóknir Liverpool sem nokkuð kvað að og tvö mörk!

Þrefaldir meistarar City voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og á 25. mínútu kom Sergio Aguero sér í skotfæri í vítateignum en Alisson Becker varði vel. Fjórum mínútum seinna komst Angelino inn í vítateiginn og náði skoti sem fór í Virgil van Dijk og þaðan í stöngina og framhjá. Rétt á eftir tók Trent mikla rispu fram völlinn og alla leið að vítateig City. Þar missti hann boltann en Roberto Firmino náði honum og átti fast skot að marki frá vítateig en Claudio Bravo varði. Á síðustu andartökum hálfleiksins átti Mohamed skot utan vítateigs eftir gott spil en Claudio varði uppi í vinstra horninu. Staðan prýðileg í hálfleik. 

Liverpool bætti stöðuna enn frekar eftir sex mínútur í síðari hálfleik. Jordan Henderson braust upp að endamörkum hægra megin og sendi yfir að fjærstöng. Þar henti Sadio Mané sér fram og skallaði neðst í markhornið fyrir framan Kop stúkuna. Claudio hafði hendur á boltanum og allt kom fyrir ekki. Þriðja mark Liverpool var staðreynd hávaðinn var ærandi þegar markinu var fagnað!

Liverpool var komið í kjörstöðu en það gat allt gerst og á 67. mínútu fékk Sergio dauðafæri en hann hitti ekki boltann við markteiginn. Óvenjulegt en kærkomið! Síðasta stundarfjórðunginn gerði City harða hríð að marki Liverpool og það gaf af sér mark þegar 12 mínútur voru eftir. Eftir fyrirgjöf frá vinstri barst boltinn til Bernardo sem skoraði með skoti neðst í nærhornið. Nokkrum mínútum seinna vildu gestirnir aftur fá víti eftir að Trent handlék boltann en dómarinn dæmdi ekkert. City lagði allt í sölurnar það sem eftir var en ekkert gekk gegn ákveðnum leikmönnum Liverpool. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu innilega þegar flautað var til leiksloka. Gríðarlega mikilvægur sigur en það er mikið eftir enn!

Evrópumeistararnir spiluðu frábærlega og allir innan vallar sem utan svöruðu herkvaðningu Jürgen Klopp fyrir leikinn. Það dugði ekkert minna á móti þreföldum meisturum Manchester City. Staða Liverpool er geysilega góð þegar síðasta landsleikkjahlé árins hefst. Vonandi heldur Liverpool áfram á spmu braut þegar landsleikjum lýkur. 

Liverpool:
Alisson, Alexander-Arnold, Lovren, van Dijk, Robertson, Henderson (Milner 61. mín.), Fabinho, Wijnaldum, Salah (Gomez 87. mín.), Firmino (Oxlade-Chamberlain 79. mín. ) og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrian, Keita, Lallana og Origi.

Mörk Liverpool: Fabinho Tavarez (6. mín.), Mohamed Salah (13. mín.) og Sadio Mané (51. mín.). 

Manchester City: Bravo, Walker, Stones, Fernandinho, Angelino, De Bruyne, Rodri, Gundogan, Bernardo Silva, Aguero (Jesus 71. mín.) og Sterling. Ónotaðir varamenn: Carson, Silva, Mahrez, Joao Cancelo, Otamendi og Foden.

Mark Manchester City: Bernardo Silva (78. mín.).

Gul spjöld: Rodrigo og Gabriel Jesus.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.324.

Maður leiksins:
Fabinho Tavarez. Brasilíumaðurinn var eins og svo oft áður frábær á miðjunni. Aldrei þessu vant þá skoraði hann líka og það á besta tíma!

Jürgen Klopp: Þvílíkur leikur. Það þarf mikið til að vinna Manchester City og við urðum að spila á fullum krafti. Krafturinn í okkur var lykilatriði. Við stjórnuðum leiknum í 75 mínútur. City átti síðustu 15 mínúturnar. Strákarnir lögðu ótrúlega hart að sér. 

Fróðleikur

- Fabinho Tavarez skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði níunda mark sitt á sparktíðinni. 

- Mohamed hefur átt þátt í 69 mörkum á Anfield í 60 leikjum. Hann hefur skorað 51 mark og lagt upp 18.

- Sadio Mané skoraði 11. mark sitt á þessu keppnistímabili. 

- Markið hans Sadio var 70. mark hans fyrir Liverpool í 140 leikjum. 

- Hann er búinn að skora 17 mörk í síðustu 16 leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliði á Anfield. 

- Virgil van Dijk lék sinn 90. leik með Liverpool. Hann hefur skorað átta mörk. 

- Jordan Henderson spilaði sinn 250. deildarleik. Alls hefur hann leikið 339 leiki með Liverpool. 

- Liverpool hefur ekki tapað fyrir Manchester City í síðustu 17 deildarleikjum liðanna á Anfield.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan