| Sf. Gutt

Tveir leikir á tveimur dögum!


Eins og fram hefur komið varð það úr að Liverpool spilar tvo leiki á tveimur dögum í tveimur heimsálfum. Í senn einstakt og ótrúlegt! Eftir að Liverpool komst áfram í Deildarbikarnum kom í ljós að átta liða úrslit keppninnar fara fram á sama tíma og Heimsmeistarakeppni félagsliða. 

Liverpool leikur sem sagt við Aston Villa á Villa Park þriðjudagskvöldið 17. desember. Daginn eftir, 18. desember, spilar Liverpool svo til undanúrslita í Heimsmeistarakeppni félagsliða í Katar. 

Þessi niðurstaða er auðvitað slæm fyrir Liverpool á allan hátt því hún þýðir að Jürgen Klopp getur ekki teflt fram öllum sínum sterkustu mönnum í hvorugum leiknum. Möguleikar Liverpool á vinna keppnirnar skerðast því mikið. Sterkustu mennirnir fara örugglega til Asíu og yngri menn mæta á Villa Park. Reyndar hefur Liverpool teflt fram yngri mönnum í Deildarbikarnum hingað til en alltaf einhverjum reyndum með. 

Jürgen Klopp lagði reyndar fram skemmtilega lausn á málinu. ,,Getum við ekki bara beðið Aston Villa að koma til Katar svo við getum spilað við þá þar!"

Hvernig sem allt fer þá verður þetta sögulegt. Það kom oft fyrir áður fyrr á árum að lið spiluðu tvo daga í röð. En það hlýtur að vera einsdæmi að lið spili tvo daga í röð í tveimur heimsálfum!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan