| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er í Meistaradeildinni gegn Genk á Anfield. Á pappír er þetta léttasti leikurinn í riðlinum og með sigri koma okkar menn sér í fína stöðu í riðlinum.

Nú þegar styttist í stórleikinn við Manchester City um næstu helgi horfa margir stuðningsmenn á þann leik en Jürgen Klopp og hans menn hafa sýnt það í gegnum tíðina að liðið er mjög einbeitt á næsta verkefni. Belgíska liðið er svo sannarlega ekki verkefni sem vinnst með slökum undirbúningi og einbeitingarleysi og líklega teflir stjórinn fram sínu sterkasta liði í kvöld. Ég spái óbreyttu liði frá sigrinum gegn Aston Villa þó með einni undantekningu að Fabinho kemur aftur inní byrjunarliðið. Hann var skiljanlega hvíldur um helgina enda hefði gult spjald gegn Villa þýtt að hann væri í banni í næsta deildarleik og það væri vissulega ekki gott gegn City. Það gæti þó líka verið að Oxlade-Chamberlain og/eða Keita fái að byrja gegn Genk en fremstu þrír verða að öllum líkindum þeir sömu og venjulega, Salah, Mané og Firmino. Á meiðslalistanum eru svo sem fyrr þeir Joel Matip, Xerdan Shaqiri og Nathaniel Clyne.

Síðan liðin mættust í Belgíu hafa Genk spilað þrjá leiki, unnið einn, gert eitt jafntefli og tapað einum og sitja þeir sem stendur í 8. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 13 leiki. Það er klárlega ekki sú byrjun á tímabilinu sem núverandi meistarar voru að vonast eftir og í Meistaradeildinni eru þeir með 1 stig eftir þrjá leiki. Eini útileikur þeirra til þessa var í fyrstu umferðinni þar sem þeir töpuðu 6-2 fyrir Salzburg og tímabilið 2011-12 þegar þeir voru síðast í riðlakeppninni töpuðu þeir m.a. úti gegn Chelsea 5-0 og Valencia 7-0. Það er vissulega langt síðan en liðið virðist vera númeri of lítið fyrir stóru félögin á útivelli.

Okkar menn halda áfram að kreista út sigra í sínum leikjum, eins og áður sagði myndi sigur í kvöld koma liðinu í níu stig og þar sem Napoli og Salzburg mætast á Ítalíu gæti forysta okkar manna á austurríska liðið verið komin í sex stig eftir kvöldið. Við sjáum til hvað gerist en krafa kvöldsins er sigur og ekkert annað og það væri nú gaman til tilbreytingar að halda markinu hreinu. Það hefur aðeins tekist í þremur leikjum það sem af er tímabili og eitthvað sem við stuðningsmenn erum næstum óvanir miðað við síðasta tímabil. En á meðan leikir vinnast er yfirleitt horft framhjá þessari staðreynd en leikmenn og þjálfarateymi félagsins vita klárlega af þessu vandamáli ef vandamál skal kalla og krafan hlýtur einnig að vera sú að Alisson haldi hreinu í kvöld.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn sigla seglum þöndum á Evrópukvöldi á Anfield og vinna 3-0 sigur. Forystan verður örugg nokkuð snemma leiks og eftir það slaka menn aðeins á klónni og spara orkuna eins og þeir geta fyrir næsta verkefni.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í Meistaradeildinni til þessa með þrjú mörk.

- Þeir Sadio Mané og Alex Oxlade-Chamberlain koma næstir með tvö mörk hvor.

- Genk hafa skorað þrjú mörk það sem af er riðlakeppninni og hafa þau dreifst jafnt á þá Jhon Lucumi, Mbwana Samatta og Stephen Odey.








TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan