| Sf. Gutt

Magnaður sigur!

Liverpool vann í dag magnaðan sigur á Tottenham Hotspur á Anfield Road. Eftir að hafa lent undir á fyrstu mínútu leiksins sneru Evrópumeistararnir leiknum sér sér í vil og unnu 2:1.

Liðin mættust síðast í Madríd á ógleymanlegu kvöldi á fyrsta degi júní þegar Liverpool vann Evrópubikarinn í sjötta sinn. Þá lagði Liverpool grunn að sigrinum í Madríd með mark strax í byrjun leiksins. En nú fékk Tottenham óskabyrjun. Reyndar var Sadio Mané næstum sloppinn í gegn á fyrstu sekúndunum en í framhaldinu missti Jordan Henderson boltann á miðjunni. Gestirnir ruddust fram völlinn. Son Heung-min fékk boltann við vítateignn og skaut að marki. Boltinn fór í höfuðið á Dejan Lovren og þaðan í stöngina. Af henni hrökk boltinn út þar sem Harry Kane henti sér fram og skallaði í markið. Vel gert hjá Harry og aðeins 48 sekúndur liðnar. 

Evrópumeistararnir létu óskabyrjun Spurs ekki slá sig út af laginu. Segja má að strax eftir markið hafi Liverpool tekið leikinn í sínar hendur. Hver sóknin rak aðra en það var ekki fyrr en á 26. mínútu sem gott færi gafst. Mohamed Salah lék sig þá í skotstöðu við vítateigslínuna en Paulo Gazzaniga varði fast skot hans vel. Hann hélt ekki boltanum sem fór til Roberto Firmino en Paulo varði skot hans líka. Rétt á eftir gaf Trent Alexander-Arnold fyrir úr aukaspyrnu frá hægri. Virgil van Dijk stökk manna hæst og skallaði að markinu en Paulo sló boltann yfir með tilþrifum. Enn sótti Liverpool og Trent átti bylmingsskot utan vítateigs sem Paulo varði. Nokkrum andartökum seinna var Trent enn á ferðinni. Góð fyrirgjöf hans fór beint á Sadio en hann skallaði framhjá úr upplögðu færi. Allt þetta gerðist á fimm mínútum eða svo. Heldur hægðist um í kjölfarið en Liverpool sótit við hvert tækifæri. Spurs leiddi í hálfleik. 

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af sama krafti og það lauk þeim fyrri. Strax í byrjun átti Andrew Roberton góða fyrirgjöf frá vinstri yfir á fjærstöng þar sem Bobby átti skalla af stuttu færi en Paulo varði enn og aftur. Rétt á eftir sparkaði Paulo langt fram völlinn á Son sem komst inn  í vítateiginn. Þar lék hann framhjá Alisson Becker og skaut að marki úr þröngri stöðu en boltinn fór í slána og út í teig þar sem hættan leið hjá.

Þarna slapp Liverpool vel og reyndist um vendipunkt að ræða því á 52. mínútu jafnaði Liverpool. Gott spil endaði með því að Fabinho Tavarez fékk boltann utan við vítateiginn þaðan sem hann gaf yfir til hægri á Jordan Henderson. Fyrirliðinn tók boltann niður og náði að koma skoti á markið. Boltinn smaug milli tveggja varnarmanna og hafnaði í markinu. Gríðarlegur fögnuður braust út og ekki síst hjá fyrirliðanum! 

Sóknir Liverpool héldu áfram og það mátti öllum ljóst vera að Evrópumeistararnir ætluðu sér að vinna leikinn. Þegar stundarfjórðungur var eftir fékk Liverpool vítaspyrnu. Sadio braust inn í vítateiginn og átti þar í baráttu við Serge Aurier. Sadio virtist hafa misst boltann en gafst ekki upp og það endaði með því að Serge sparkaði hann niður. Moahmed Salah tók vítið og eins og í Madríd urðu honum ekki á nein mistök. Hann skaut boltanum hægra megin við Paulo í markinu sem hreyfði sig ekki. Endurkoman fullkomnuð og Liverpool hélt fengnum hlut það sem eftir var leiksins. Fyrsta sigri vetrarsins var innilega fagnað þegar flautað var til leiksloka. Liverpool heldur sínu striki og sýndi geysilegan styrk með því að snúa tapstöðu í sigur! 
 
Mörk Liverpool: Jordan Henderson (52. mín.) og Mohamed Salah, víti, (75. mín.).

Gul spjöld: Dejan Lovren, Trent Alexander-Arnold og James Milner. 

Mark Tottenham: 
Harry Kane (1. mín.). 

Gul spjöld: Moussa Sissoko, Danny Rose og Tanguy Ndombele 

Áhorfendur á Anfield Road:
53.222.


Maður leiksins: Jordan Henderson. Fyrirliðinn var magnaður á miðjunni. Hann hengdi ekki haus þrátt fyrir að Tottenham kæmist yfir eftir að hann missti boltann heldur fór fyrir liðinu af miklum krafti. Hann jafnaði metin og barðist eins og ljón þar til sigur var tryggður. Fyrirliðinn okkar!

Jürgen Klopp:
Frábær leikur. Ég dýrka svona leiki. LFC upp á sitt allra besta frá öllum hliðum. Við lentum svona snemma eitt núll undir en gáfum strax í. Leikurinn opinn og allir voru með í verkefninu. Stuðningsmennirnir fylktu sér að baki okkur. Kraftmikil knattspyrna og kraftmikið andrúmsloft. Ég naut þessa alls virkilega. Þetta var dásamlegur knattspyrnuleikur. Leikur eins og maður óskar sér að knattspyrnuleikir séu. 


Fróðleikur

- Jordan Henderson skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði áttunda mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Þetta var 50. markið sem Mohamed skorar á Anfield. Mörkin hefur hann skorað í 58 leikjum. 

- Roger Hunt er eini leikmaðurinn í sögu Liverpool sem hefur náð 50 mörkum á Anfield í færri leikjum. Hann skoraði sín fyrstu 50 mörk í 55 leikjum. 

- James Milner spilaði 190. leik sinn með Liverpool. Hann hefur skorað 24 mörk. 

- Liverpool vann sinn 12. deildarleik á Anfield í röð. Metið er 13 leikir. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan