| Sf. Gutt

Joël Matip skrifar undir nýjan samning


Joël Matip skrifaði í dag undir nýjan langtímasamning við Liverpool. Eftir því sem best er vitað gildir samningurinn til 2024. Þessi magnaði miðvörður hefur spilað frábærlega síðustu mánuði. 

Joël hafði meðal annars þetta að segja eftir undirskriftina. ,,Það er virkilega frábær tilfinning að verða áfram hjá félaginu. Þeir sem standa fyrir utan félagið vita að Liverpool er stórt félag. En þegar maður er innan veggja þess skynjar maður í alvöru hversu stórt félagið er. Í öllum löndum fyrirfinnast stuðningsmenn þess út um allt. Þetta er risafélag og ég  held að allir leikmenn myndu vilja spila fyrir hönd þess."


,,Við erum með ungt og hæfileikaríkt lið og ég held að allir í liðinu séu hungraðir í velgengni. Við vitum núna hvernig það er að vinna eitthvað og okkur langar til að upplifa þá tilfinningu aftur. Það er ennþá margt að afreka. Maður veit aldrei hvernig allt endar. Hver og einn verður bara að leggja eins hart að sér og hann getur og sjá svo til. Það er heiður að vera hluti af félaginu. Ég er ánægður með að fólk telur að ég hafi staðið mig vel og vilji að ég verði áfram hérna."



Joël Matip kom á frjálsri sölu til Liverpool frá Schalke 04 sumarið 2017 en hann ólst upp hjá þýska félaginu. Hann er búinn að standa sig mjög vel hjá Liverpool og sérstaklega eftir að hann komst inn í liðið snemma á árinu eftir að Joe Gomez og Dejan Lovren meiddust. Hann og Virgil van Dijk hafa náð mjög vel saman í hjarta varnar Liverpool. Joël hefur hingað til spilað 107 leiki með Liverpool og skorað fimm mörk.

Joël er nú aftur leikfær eftir meiðsli, og getur spilað á móti Manchester United á sunnudaginn, eftir að hafa misst af tveimur síðustu leikjum. Það er gott að fá hann aftur inn í liðshópinn!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan