| Sf. Gutt

Það var fyrir níu árum!

Í dag eru níu ár liðin frá því Liverpool Football Club var bjargað ef þau orð mætti nota um það þegar John Henry og félagar náðu félaginu okkar úr höndum þeirra George Gillett og Tom Hicks. Mikið hafði gengið á dagana á undan og baráttan um Liverpool F.C. fór fram fyrir rétti og lengi vel var tvísýnt um hvort meirihluti stjórnar Liverpool hefði sitt fram í að selja félagið til New England Sports Ventures. Allt fór á besta veg og John Henry og félag hans eignaðist Liverpool F.C. Eigendaskiptin voru staðfest föstudaginn 15. október 2010. 

Það hefur svo sem ekki allt gengið smurt frá því John og félagar hans eignuðust Liverpool F.C. Það er líka sjaldan sem allt gengur snuðrulaust í lífi þessa mikla knattspyrnufélags. Að minnsta kosti erum við stuðningsmenn Liverpool orðnir ýmsu vanir það sem af er þessarar aldar! Þó er ekki vafi á því að það var algjörlega nauðsynlegt að ná félaginu af þeim George og Tom. Í raun, ef allt hefði farið á versta veg, hefði félagið getað orðið gjaldþrota með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. 


Nú gengur rekstur félagsins mun betur og það er laust við skuldafargið sem var að sliga það. Stækkun Anfield Road tókst eins og best gat verið en eigendur Liverpool ákváðu að vinna að stækkun frekar en að reisa nýjan leikvang. Jürgen Klopp er búinn að  búa til frábært knattspyrnulið og í því eru stórgóðir leikmenn. 

Tveir stórtitlar hafa bæst á afrekaskrá Liverpool á árinu og möguleiki er á einum áður en árið rennur sitt skeið. Þann 1. júní vann Liverpool Evrópubikarinn í Madríd og liðið er því ríkjandi Evrópumeistari í sjötta sinn. Í ágúst vannst Stórbikar Evrópu í fjórða skipti í Istanbúl. Sumarið var því sérstaklega gjöfullt fyrir Liverpool og okkur stuðningsmenn liðsins!


John Henry og félagar hans eiga kannski enn eftir að efna nokkur loforð, sem þeir gáfu þegar kaupin gengu í gegn, en þeim fer fækkandi og stöðu Liverpool F. C. er ekki saman að líkja nú og fyrir níu árum þegar allt stefndi í strand. Áfram gakk!TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan