| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Titilvörn okkar manna í Meistaradeildinni hefst í kvöld þegar kunnuglegir mótherjar Napoli verða heimsóttir á Stadio San Paolo. Leikurinn hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma.

Fyrsti leikur riðlakeppni Meistaradeildar er yfirleitt nokkuð óskrifað blað ef þannig má að orði komast. Það er ekki ólíklegt að leikurinn fari hægt af stað og leikmennirnir vilji ná að fóta sig almennilega til að byrja með. Bæði lið hafa byrjað tímabilið vel en reyndar hafa Napoli aðeins leikið þrjá deildarleiki á móti fimm leikjum okkar manna. Ekki þarf að fjalla mikið um hvernig gengi Liverpool hefur verið í deildinni það sem af er en Ítalíu megin hafa þeir ljósbláklæddu unnið tvo og tapað einum. Tapleikur þeirra á kannski ekki að koma mikið á óvart en hann kom gegn Juventus á útivelli. Engu að síður komu Napoli til baka úr stöðunni 3-0 og jöfnuðu metin en í uppbótartíma skoraði Koulibaly slysalegt sjálfsmark og tryggði Gömlu konunni (eins og Juventus eru gjarnan nefndir) sigur.

Allir muna eftir viðureignum liðanna í riðlakeppni Meistaradeildar á síðasta tímabili. Reyndar er minningin úr útileiknum ekki skemmtileg en þar spiluðu okkar menn illa, töpuðu 1-0 og kom markið mjög seint í leiknum. Úrslitaleikur um sæti í 16-liða úrslitunum fór svo fram á Anfield þar sem Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins og Alisson Becker átti hreint ótrúlega vörslu í blálokin sem varð kannski til þess að okkar menn fóru alla leið í keppninni ? Liðin mættust einnig á undirbúningstímabilinu þar sem Napoli unnu góðan 3-0 sigur en sem betur fer er nú oft ekki mark takandi á leikjum áður en alvaran hefst.

Markvarslan frábæra !



Það er því ljóst að bæði lið þekkja hvort annað nokkuð vel. Skörð eru þó hoggin í bæði lið, Liverpool megin er ljóst að Divock Origi verður ekki með eftir að hafa meiðst gegn Newcastle og þá hefur Andy Robertson ekki æft eftir sama leik og staðan verður tekin á honum í dag. Naby Keita byrjar væntanlega að æfa í vikunni og sem fyrr eru Alisson Becker og Nathaniel Clyne frá. Líklegt er að engin áhætta verði tekin með skoska bakvörðinn svona í fyrsta leik riðlakeppninnar og James Milner verður þá væntanlega í vinstri bakvarðastöðunni. Hjá Napoli eru ekki margir frá vegna meiðsla en framherjinn Arkadiusz Milik verður ekki með. Eitthvað var talað um að Lorenzo Insigne myndi ekki ná þessum leik en allt lítur út fyrir að hann sé klár í slaginn.


Ítalirnir hafa styrktu leikmannahópinn í sumar. Meðal annara festu þeir kaup á Hirving Lozano frá PSV Eindhoven, varnarmaðurinn Konstantinos Manolas kom frá Roma, markvörðurinn Alex Meret kom frá Udinese og þá gekk félagið frá kaupunum á markverðinum David Ospina frá Arsenal. Undir lok leikmannagluggans fengu þeir svo Fernando Llorente frá Tottenham og því er ljóst að þeir hafa ógnarsterkt lið á pappír. Þó svo að tilfinningin sé sú að liðin hafi oft mæst undanfarið sé sterk þá er þetta aðeins fimmta viðureign í sögu félaganna. Tímabilið 2010-11 voru liðin saman í riðli í Evrópudeildinni og endaði útleikurinn með markalausu jafntefli, okkar menn höfðu svo sigur á Anfield 3-1. Mynd af byrjunarliði Liverpool í þeim leik fór víða á samfélagsmiðlum fyrir ekki svo löngu síðan og margir hugsa með hryllingi til þess liðs sem var stillt upp í leiknum. Þar mátti sjá nöfn eins og Milan Jovanovic, Christian Poulsen, Jay Spearing og Sotiris Kyrgiakos. Mikið er nú gott að við komumst öll heil í gegnum þetta tímabil.

Spáin að þessu sinni er sú að leikurinn endar með jafntefli 1-1. Heimamenn skora í fyrri hálfleik og halda forystunni vel fram í seinni hálfleik þegar þögn slær á stuðningsmenn heimaliðsins og jöfnumarmark Liverpool kemur. Auðvitað vonumst við eftir sigri í kvöld en jafntefli á erfiðum útivelli gegn erfiðasta mótherja riðilsins ættu ekki að teljast slæm úrslit.

Fróðleikur:

- Roberto Firmino gæti spilað sinn 200. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Til þessa hefur Brasilíumaðurinn skorað 68 mörk í 199 leikjum.

- Sadio Mané er markahæstur leikmanna Liverpool á tímabilinu með sex mörk.

- Dries Mertens er markahæstur hjá Napoli með þrjú mörk það sem af er tímabils.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan