| Heimir Eyvindarson

Áfram á sigurbraut

Liverpool hélt áfram á sigurbraut í dag þegar liðið lagði Newcastle að velli á Anfield. Lokatölur urðu 3-1 eftir að gestirnir höfðu náð forystu snemma leiks. Liverpool með fullt hús á toppi deildarinnar. 

Jürgen Klopp gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Henderson og Firmino settust á bekkinn og í þeirra stað komu Oxlade-Chamberlain og Origi inn í byrjunarliðið.

Liverpool var 81% með boltann í fyrri hálfleik og miklu betri. Samt var það Newcastle sem skoraði fyrsta markið, strax á 7. mínútu. Það gerði Willems eftir langa sendingu innfyrir vörn Liverpool. Óvænt byrjun. 

Á 25. mínútu fékk Origi fínt færi en hitti ekki á markið. Hann fór síðan meiddur af velli nokkrum mínútum síðar. Vonandi ekkert allt of alvarlegt að hrjá hann. 

Á 26. mínútu hefði Liverpool auðveldlega getað fengið víti þegar Matip var togaður niður inní teignum, en André Marriner dómari leiksins var ekki á því og ekki VAR heldur. Það verður fróðlegt að sjá hvað menn segja um þetta atvik við nánari skoðun. 

Á 28. mínútu jafnaði Liverpool metin, markið skoraði Sadio Mané eftir sendingu frá Robertson. Snilldarmark.

Á 40. mínútu skoraði Mané öðru sinni, nú eftir sendingu frá Firmino og klaufaleg mistök hjá Dúbravka í marki Newcastle. 

Staðan 2-1 á Anfield í leikhléi. 

Newcastle byrjaði seinni hálfleikinn af krafti, en sá kraftur varði ekki í nema 4 mínútur um það bil. Eftir það tók Liverpool aftur öll völd á vellinum. 

Á 49. mínútu átti Wijnaldum skemmtilegt skot rétt yfir mark Newcastle eftir fyrstu sókn Liverpool í seinni hálfleiknum. Nokkrum sentimetrum neðar og við hefðum séð eitt af mörkum tímabilsins. Sókn Liverpool var mjög þung næstu mínúturnar og Dúbravka hélt gestunum á floti með nokkrum fínum markvörslum. 

Það var þó ekki fyrr en á 72. mínútu sem Liverpool náði að skora þriðja markið, en það mark var aldeilis ekki af verri endanum. Frábær þríhyrningur Salah og Firmino endaði með því að Salah renndi boltanum í fjærhornið úr þröngu færi. Hælsendingin frá Firmino ein fallegasta stoðsending sem sést hefur. Þvílíkur leikmaður. Staðan 3-1 og sigurinn um það bil í höfn. 
Á 87. mínútu átti Firmino aftur frábæra hælsendingu á Salah, sem endaði reyndar með skoti frá Alexander-Arnold sem Dúbravka varði. 

Mínútu síðar skoraði Mané, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu Firmino í aðdragandanum. 

Liverpool: Adrián; Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson; Fabinho, Wijnaldum (Shaqiri á 84. mín.), Oxlade-Chamberlain (Milner á 75. min.) Salah, Origi (Firmino á 29. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gomez, Henderson, Lallana.

Mörk Liverpool: Mané á 28. og 40. mín. Salah á 72. mín.

Newcastle: Dúbravka, Krafth, Schär, Lascelles, Dummett, Willems, Hayden, Shelvey, Atsu, Almirón, Joelinton. Varamenn: Darlow, , Fernández, Clark, M. Longstaff, Ki, Muto

Mark Newcastle: Willems á 7. mín. 

Maður leiksins: Það er hálf asnalegt að velja ekki Mané mann leiksins, hann var virkilega öflugur og skoraði tvö mikilvæg mörk, en ég ætla að velja Andy Robertson. Hann var algjörlega frábær allan leikinn, í vörn og sókn.


Fróðleikur:

-Liverpool hefur ekki tapað fyrir Newcastle á Anfield síðan 1994. 

-Liverpool hefur unnið alla leiki sína í deildinni í vetur og er á toppnum með fullt hús stiga.

-Sadio Mané lék í dag sinn 50. leik með Liverpool á Anfield. Hann státar af einstakri tölfræði því hann hefur aldrei verið í tapliði á Anfield. Í 50 leikjum með Liverpool og einum með Southampton eru sigrarnir 41 og jafnteflin 10. Enginn leikmaður hefur leikið það eftir, á nokkrum einasta velli í deildinni. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan