| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er stórleikur á dagskrá laugardaginn 24. ágúst þegar Arsenal mæta á Anfield í 3. umferð úrvalsdeildarinnar. Undanfarin ár hafa þetta verið markaleikir og það er ekki ólíklegt að slíkt verði uppá teningnum á morgun. Leikurinn fer fram kl. 16:30 að íslenskum tíma.

Jürgen Klopp var á blaðamannafundi eins og venja er í dag og var hann sérstaklega ánægður með að fá heila viku til undirbúnings fyrir leikinn og sagði að þessi vika væri hluti af því að koma sínum mönnum í rétt stand það sem eftir er tímabilsins. Hann fagnaði auðvitað nýjum samningi Alex Oxlade-Chamberlain og sagði að undirbúningstímabilið hefði verið honum erfitt þar sem það hafi tekið tíma að venjast háu tempói á æfingum. Oxlade-Chamberlain var látinn æfa eins og leikmaður sem var að snúa aftur eftir sumarfrí frekar en leikmaður sem væri að snúa aftur eftir erfið meiðsli og það hafi reynst honum erfitt, þó á góðan hátt. Engin ný meiðsli hafa gert vart við sig í leikmannahópnum en eins og áður eru þeir Alisson og Naby Keita meiddir og verða líklega ekki klárir fyrr en eftir landsleikjahlé.

Hjá Arsenal er eitthvað meira um meiðsli en á listanum fræga eru þeir Hector Bellerin, Mavropanos og nýjasti leikmaður félagsins Kieran Tierney, enginn þeirra mun taka þátt í leiknum á Anfield en þeir Granit Xhaka og Mezut Özil, sem ekkert hafa spilað til þessa verða að öllum líkindum með eða a.m.k. í leikmannahópnum sem ferðast til Liverpool. Arsenal hafa byrjað þetta tímabil vel, unnið fyrstu tvo leiki sína en það gerðist síðast fyrir 10 árum síðan. Félagið gerði nokkur góð kaup í sumar og stuðningsmenn félagsins eru hvað spenntastir fyrir Nicolas Pepé sem kom frá Lille fyrir háa upphæð. Hann hefur komið inn af bekknum í þessum tveim leikjum en margir búast við því að hann byrji næsta leik. Það verður því svosem ekki óárennileg sóknarlína Skyttanna ef hann spilar með Alexandre Lacazette og Pierre-Emerick Aubameyang. Spurningamerki verður þó alltaf sett við vörnina hjá þeim og kannski hægt að segja að það sé þeirra veikasti hlekkur.

Hvað svo sem því líður þurfa okkar menn að eiga toppleik til að vinna, hér eru jú að mætast einu lið deildarinnar sem ekki hafa tapað stigi (þó það séu reyndar bara tveir leikir). Eins og áður sagði hafa þessir leikir verið markaleikir undanfarin ár og Liverpool hafa unnið síðustu þrjá leiki liðanna í deild á Anfield. Síðasti tapleikur á heimavelli gegn Arsenal kom í september 2012 þegar Lúndunaliðið sigraði 0-2. Síðan þá hafa liðin mæst sex sinnum í deildinni, tveir leikir hafa endað jafnir en í hinum fjórum hafa okkar menn sigrað. Það sem meira er þá 30 mörk litið dagsins ljós í þessum leikjum eða 5 mörk að meðaltali í leik. Þann 29. desember í fyrra mættust liðin síðast og enduðu leikar 5-1 fyrir okkar menn þar sem Arsenal skoruðu fyrsta markið. Roberto Firmino var þó ekki lengi að snúa taflinu við með tveim mörkum á 14. og 16. mínútu og eftir það var þetta nokkuð þægilegur sigur þar sem Brasilíumaðurinn fullkomnaði þrennuna með marki úr vítaspyrnu í seinni hálfleik.

Það eru mörg góð teikn á lofti hjá Liverpool þessa dagana og bjartsýni ríkjandi, ekki minnkaði bjartsýnin í vikunni þegar fréttir bárust af því að eigendur félagsins vilja stækka Anfield Road End stúkuna meira en núverandi áætlanir gera ráð fyrir. Fréttir hafa svo verið að berast af því að félagið muni semja við Nike sem búningaframleiðanda félagsins næstu árin og að þar sé samningur uppá 100 milljónir punda eða þar um bil. Sá samningur yrði sá stærsti á Englandi en skv. staðarblaðinu Liverpool Echo voru þær fréttir aðeins á undan sér ef þannig má að orði komast og fleiri framleiðendur eru ennþá í umræðunni.

Öll bjartsýni getur verið fljót að hverfa ef okkar menn spila ekki almennilega og ná ekki að sigra Arsenal í næsta leik. Spáin að þessu sinni er sú að liðin halda sig við mikla markaskorun og koma bæði boltanum í netið. Liverpool skorar þó fleiri mörk og 4-2 sigur verður niðurstaðan. Það verður auðvitað rífandi stemmning á Anfield eins og við er að búast þegar um seinniparts leik á laugardegi er að ræða. Við sem horfum á þetta í sjónvarpinu látum nægja að fylgjast með á Síminn Sport en þar verður leikurinn sýndur í Ultra HD (UHD) og er það fyrsti leikurinn sem Síminn sýnir í þessum gæðum.

Fróðleikur:

- Sadio Mané hefur skorað flest mörk það sem af er leiktíðar eða þrjú talsins (eitt í deildinni og tvö í Ofurbikar Evrópu).

- Þegar litið er á markaskorun í deildinni skipta fimm leikmenn með sér markaskoruninni með eitt mark hver (Mané, Salah, Firmino, Origi og Van Dijk).

- Pierre-Emerick Aubameyang (tvö) og Alexandre Lacazette (eitt) hafa séð um markaskorun Arsenal það sem af er tímabili.

- Roberto Firmino spilar líklega leik númer 140 í deildinni fyrir félagið.

- Honum hefur ekki leiðst að skora gegn Arsenal gegnum tíðina og hefur skorað átta mörk í átta leikjum gegn þeim.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan