| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Sem fyrr eru leikmenn Liverpool á láni hjá hinum ýmsu liðum þetta tímabilið og hér má lesa hvernig þeim gekk með liðum sínum um helgina.Harry Wilson og Marko Grujic skoruðu báðir fyrir sín lið. Wilson er á láni hjá Bournemouth í úrvalsdeildinni og spilaði í fyrsta sinn í byrjunarliði suðurstrandarliðsins á útivelli gegn Aston Villa. Wilson er þekktur fyrir sín þrumuskot og markið sem hann skoraði var einmitt eitt slíkt, vel fyrir utan teig og boltinn fór í stöngina og inn, stórglæsilegt mark sem má sjá hér fyrir neðan.

Wilson sagði í viðtali eftir leik: ,,Ég naut þess að spila. Þetta er það sem ég hef verið að vinna að. Ég hef fengið margar mínútur í næst efstu deild og með landsliðinu en aldrei spilað úrvalsdeildarleik áður. Ég var virkilega ánægður með að fá mínar fyrstu mínútur, var þakklátur stjóranum fyrir traustið frá byrjun og ég hafði gaman af. Það eina sem ég vildi var komast út á völl, fá boltann, reyna að skapa eitthvað og mér fannst ég ná að gera það."

Marko Grujic er hjá Hertha Berlin eins og í fyrra og hann var í byrjunarliðinu gegn Bayern Munchen á útivelli á föstudagskvöldið. Leikar enduðu með jafntefli 2-2 sem verður að teljast nokkuð gott hjá Berlínarliðinu. Grujic kom sínum mönnum yfir 1-2 í fyrri hálfleik en Þýskalandsmeistararnir jöfnuðu metin í seinni hálfleik.

Nathaniel Phillips er á láni hjá Stuttgart sem spila í næst efstu deild Þýskalands. Hann kom inná sem varamaður í seinni hálfleik í 2-1 sigri á St. Pauli á laugardaginn.

Þá spilaði Taiwo Awoniyi nokkrar mínútur með Mainz sem tapaði fyrir Freiburg í Bundesligunni.

Í Skotlandi spilar Sheyi Ojo með Rangers og þeir keppa í undankeppni Evrópudeildarinnar. Á fimmtudaginn mættust Rangers og FC Midtjylland í Skotlandi og urðu lokatölur 3-1 sigur Rangers og þar með áframhald í undankeppninni þar sem liðið mætir Legia Varsjá frá Póllandi. Ojo skoraði í leiknum og kom sínum mönnum í 2-0. Hann var svo ekki í leikmannahóp liðsins um helgina þegar 2. umferð skoska deildarbikarsins fór fram. Þar stýrði Steven Gerrard sínum mönnum til 3-0 sigurs gegn East Fife.

Liam Millar spilaði með Kilmarnock í áðurnefndum deildarbikar og lagði upp mark fyrir sína menn í framlengingu og sigurleik gegn Hamilton Academical á laugardaginn.

Ovie Ejaria er á mála hjá Reading í næst efstu deild Englands og spilaði hann í 85 mínútur í 3-0 sigri gegn Cardiff City. Var þetta fyrsti sigurleikur Reading í deildinni á leiktíðinni en fyrstu tveir leikirnir höfðu tapast.

Kamil Grabara var í byrjunarliði Huddersfield gegn Fulham í sömu deild og þurfti að hirða boltann tvisvar sinnum úr marki sínu í 1-2 tapleik. Huddersfield hafa eitt stig eftir þrjá leiki.

Í League One spilaði Ben Woodburn frá byrjun með Oxford United í 2-1 tapi fyrir Blackpool. Oxford hafa til þessa náð í fjögur stig úr þremur deildarleikjum.

Varnarmaðurinn Rhys Williams spilar með Kidderminster Harriers' í ensku utandeildinni (National League North) og hjálpaði sínu liði að halda hreinu í 1-0 sigri gegn Curzon Ashton.

Að lokum er það svo Brasilíumaðurinn Allan Rodrigues de Souza sem spilar í heimalandinu með Fluminense. Liðið er í fallbaráttu í efstu deild og töpuðu þeir 1-0 fyrir CS Alagoano á sunnudaginn var. Eftir 15 umferðir situr Fluminense í 18. sæti deildarinnar með 12 stig en 20 lið eru í deildinni. Þess má svo geta að Allan hefur verið kallaður upp í leikmannahóp Brasilíu fyrir Ólympíuleikanna næsta sumar.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan