| Sf. Gutt

Liverpool Stórbikarmeistari Evrópu!


Liverpool endurtók leikinn frá því 2005 með því að vinna Evróputitil í vítaspyrnukeppni í Istanbúl. Liverpool vann Stórbikar Evrópu í kvöld með því að vinna Chelsea 5:4 í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var jöfn 2:2 eftir framlengdan leik. Liverpool hefur nú unnið Stórbikarinn fjórum sinnum og þetta er 13. Evróputitill félagsins.!

36. mín. Chelsea komst yfir þegar Christian Pulisic lék fram að vítateignum og læddi góðri sendingu yfir til vinstri á Olivier Giroud. Hann lagði boltann fyrir sig vinstra megin í vítateignum og skoraði með nákvæmu skoti neðst í fjærhornið. 


48. mín. Liverpool hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti. Fabinho Tavarez sendi inn í vítateiginn á varamanninn Roberto Firmino. Kepa Arrizabalaga kom út úr markinu en Roberto náði að stýra boltanum til hægri á Sadio Mané sem var grimmur og kom boltanum framhjá Kepa og fylgdi honum svo yfir marklínuna. Harðfylgi hjá Roberto og Sadio. 

95. mín. Sadi lék fram völlinn og sendi til vinstri út á Roberto sem gaf aftur á Sadio sem var kominn inn í vítateiginn. Senegalinn hitti boltann fullkomlega og þrumaði honum í markið í þverslána og inn. Glæsilegt mark!

101. mín. Pedro Rodríguez braust upp að endamörkum hægra megin og sendi fyrir markið. Tammy Abraham og Adrián San Miguel sóttu báðir að boltanum. Tammy féll en Adrián sagðist ekki hafa snert hann. Dómarinn dæmdi víti og lét dóminn standa eftir að atvikið var skoðað á myndbandi. Rangur dómur því Tammy lét sig detta án snertingar. Jorginho tók vítið og jafnaði af miklu öryggi. 

Vítaspyrnukeppnin

Roberto Firmino reið á vaðið og skoraði. Þeir Fabinho Tavarez, Divock Origi og Trent Alexander-Arnold fylgdu fordæmi hans og skoruðu. Jorginho, Ross Barkley, Mason Mount og Emerson Palmieri skoruðu úr fyrstu fjórum vítum Chelsea. Mohamed Salah skoraði úr fimmtu vítaspyrnu Liverpool. Tammy Abraham varð að skora til að halda möguleikum Chelsea á lífi. Adrián sá við honum og varði skot hans sem var á mitt markið og varð um leið goðsgögn hjá stuðningsmönnum Liverpool!


 
Trylltur fögnuður tók við þegar Adrián varði vítið. Liverpool hafði bætt Stórbikarnum við Evrópubikarinn fyrir árið 2019. Leikurinn var erfiður fyrir Liverpool enda ætlaði Chelsea ekki að gefa neitt eftir. En seigla og kraftur Liverpool skein í gegn eins og svo oft á þessu frábæra ári í sögu félagsins. Stuðningsmenn Liverpool voru úti um allt á Besiktas Park og þeir urðu vitni að endurtekningu á kraftaverkinu 2005. Leikurinn í kvöld var ekki á borð við hann en aftur gerðist það að Liverpool vann Evróputitil í vítaspyrnukeppni í Istanbúl! Jordan Henderson tók við bikarnum og Rauðliðar innan vallar sem utan fögnuðu fram á nótt og það var komið fram á nótt í Istanbúl eins og um árið þegar Evrópubikarnum var fagnað!

Liverpool: Adrian, Gomez, Matip, Van Dijk, Robertson (Alexander-Arnold 90. mín.), Milner (Wijnaldum 64. mín.), Fabinho, Henderson, Oxlade-Chamberlain (Firmino 46. mín.), Salah og Mané (Origi 103. mín.). Ónotaðir varamenn: Lonergan, Lallana, Shaqiri, Brewster, Hoever, Elliott og Kelleher.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (48. og 95. mín.).

Mörk Liverpool í vítaspyrnukeppninni: Roberto Firmino, Fabinho Tavarez, Divock Origi, Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah. 

Gul spjöld: Jordan Henderson og Trent Alexander-Arnold.

Chelsea: Arrizabalaga, Azpilicueta, Zouma, Christensen (Tomori 85. mín.), Emerson, Jorginho, Kante, Kovacic (Barkley 101. mín.), Pulisic (Mount 74. mín.), Giroud (Abraham 74. mín.) og Pedro. Ónotaðir varamenn: Caballero, Rudiger, Alonso, Willian, Kenedy, Zappacosta, Batshuayi og Gilmour.

Mörk Chelsea: Olivier Giroud (36. mín.) og Jorginho, víti, (101. mín.).

Mörk Chelsea í vítaspyrnukeppninni: Jorginho, Ross Barkley, Mason Mount og Emerson Palmieri. Tammy Abraham mistókst að skora. 

Gult spjald:
Cesar Azpilicueta.

Áhorfendur á Besiktas Park: 38.434.


Maður leiksins: Adrián San Miguel. Það er ekki annað hægt en að velja hann Mann leiksins. Fyrir utan að verja vítaspyrnuna sem réði úrslitum þá stóð Spánverjinn sig mjög vel í markinu. Annar leikur Adrián og hann er orðinn goðsögn hjá stuðningsmönnum Liverpool eða ég held að það megi segja það. Ævintýrin gerast ennþá!

Jürgen Klopp:  ,,Hann er uppi á vegg á Melwood. Flott. Þeir þurfa að teikna hann á nýjan leik og mála vegginn á Melwood upp á nýtt. Líka að setja nýja tölu á vegginn 2019 og mynd eða hvernig sem það er útfært. Þetta er stór titill. Eins og ég sagði áður þá vissi ég ekki fyrir leikinn hversu mikla þýðingu hann hefur. Núna veit ég það og það er frábært!"


Fróðleikur

- Liverpool vann Stórbikar Evrópu í fjórða sinn í sögu félagsins. 

- Liverpool hefur unnið Stórbikarinn árin 1977, 2001, 2005 og 2019. Liðið tapaði í úrslitum árin 1978 og 1984.

- Barcelona og AC Milan hafa unnið Stórbikarinn oftast eða fimm sinnum. 

- Liverpool og Real Madrid koma næst með fjóra sigra. 

- Ekkert enskt lið fyrir utan Liverpool hefur unnið Stórbikarinn oftar en einu sinni.

- Þetta var 13. Evróputitill Liverpool. Ekkert enskt lið hefur unnið jafn marga Evróputitla.

- Þetta var þriðja tap Chelsea í röð í leik um Stórbikarinn. Chelsea vann Stórbikarinn 1998.   

- Sadio Mané skoraði fyrstu mörk sín á leiktíðinni.

- Fyrra markið hans var númer 60 fyrir Liverpool. 

- Joël Matip lék sinn 100. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk.

- Þeir Andy Lonergan og Harvey Elliott voru í fyrsta skipti í aðalliðshóp Liverpool. Þeir gátu ekki byrjað betur því þeir fengu gullverðlaunapening fyrir leikinn!

- Xherdan Shaqiri var í annað sinn í sigurliði í Stórbikarnum. Hann var í liði Bayern München sem vann titilinn árið 2013. Þá vann Bayern Chelsea 5:4 í vítaspyrnukeppni eftir 2:2 jafntefli. Xherdan skoraði síðasta mark Bayern í vítakeppninni!

- Stephanie Frappart, frá Frakklandi, varð fyrsta konan til að dæma úrslitaleik á Evrópumóti. Tímamót!  

Hér má sjá
 myndir af, Liverpoolfc.com, þegar Stórbikarsigrinum var fagnað.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan