| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Jürgen Klopp og menn hans eiga þess kost í kvöld að vinna Stórbikar Evrópu. Það eru til stærri titlar en það er ekki spurning um að nýta hvert tækifæri til að vinna þá titla sem bjóðast. Liverpool á sæti í leiknum um Stórbikarnum af því að liðið vann þann stærsta sem hægt er að vinna í Evrópu í vor. Hvað gæti verið betra en að fylgja sjötta Evrópubikarnum eftir með fjórða Stórbikarnum? Ekkert!

Það verður boðið upp á Englandsorrustu í Miklagarði í kvöld. Chelsea er mótherjinn eftir að hafa unnið Evrópudeildina með 4:1 stórsigri á Arsenal í Baku. Það var líka Englandsorrusta í Madríd í vor þegar Liverpool vann Evrópubikarinn. Liverpool vann þá Tottenham Hotpsur 2:0 og nú bíður annað lið frá London í úrslitaleik. Sumir segja að Liverpool eigi mikilvægari leik á laugardaginn þegar liðið mætir Southampton í deildinni en stuðningsmenn Liverpool vilja bæta titli í safnið áður en kemur að þeim leik. 

Maurizio Sarri staldraði stutt við sem framkvæmdastjóri Chelsea en hann endaði á að vinna titil. Það verður ekki litið hjá því að þrátt fyrir tíð skipti á framkvæmdastjórum hefur Chelsea unnið titla. Í sumar tók goðsögnin Frank Lampard við Chelsea og nú á að reyna að vinna meira til framtíðar. Félagið gat ekki keypt neina leikmenn í sumar vegna banns og hinn magnaði Edin Hazard fór til Real Madrid. Liðið er samt vel skipað og á góðum degi er það erfiður andstæðingur. 


Liverpool verður án Alisson Becker og Spánverjinn Adrian San Miguel tekur stöðu hans í markinu. Spánverjinn er reyndar ekki í mikilli æfingu eftir að hafa verið án félags þar til Evrópumeistararnir höfðu allt í einu samband um daginn. Það yrði magnað ævintýri fyrir hann að vinna titil í sínum öðrum leik fyrir félag sem honum hefur örugglega aldrei dottið í hug að hann ætti eftir að spila fyrir! Naby Keita fór af æfingu í gærkvöldi og alls óvíst hvort hann getur spilað. Annars hefur Jürgen Klopp úr sínum bestu mönnum að velja. Nokkrir ungliðar verða á bekknum og svo segist Sadio Mané vera tilbúinn í slaginn eftir örstutt sumarfrí. Hann kom inn á í sigrinum á Norwich um síðustu helgi. 


Eftir að hafa tapað Skjaldarleiknum í vítaspyrnukeppni má ekki gerast að Stórbikarinn gangi úr greipum Evrópumeistaranna. Ég spái því að Liverpool bæti Stórbikarnum í safn titla sem félagið hefur unnið í Istanbúl. Liverpool vinnur 2:0 með mörkum Moahmed Salah og Roberto Firmino. Áfram með smjörið!

YNWA!
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan