| Sf. Gutt

Það hjálpar alltaf að vinna titla!


Jürgen Klopp segir að það sé alltaf hjálplegt að vinna titla. Liverpool á kost á því annað kvöld þegar liðið leikur við Chelsea um Stórbikar Evrópu. Jürgen hafði meðal annars þetta að segja á blaðamannafundi í Istanbúl í dag þegar hann var spurður um mikilvægi leiksins.   

,,Ég veit ekki um áhrif eins leiks á alla hina leikina en ég veit að það er alltaf hjálplegt að vinna knattspyrnuleiki. Það er líka alltaf hjálplegt að vinna titla. Allir vilja að við vinnum titla og það hjálpar líka. En þetta allt hefur engin áhrif á byrjunina í Úrvalsdeildinni. Við höfum byrjað býsna vel. Við lékum vel á móti Man City og létum þá hafa fyrir því sem er erfitt. Við náðum jafntefli og töpuðum í vítaspyrnukeppni og svo unnum við Norwich 4:1. Í þeim leik spiluðum við mjög vel í 60 mínútur og svo komu 30 mínútur sem voru ekki jafn góðar. Annað kvöld er önnur keppni þar sem allt er öðruvísi. Allt er tilbúið fyrir úrslitaleikinn svo það er augljóst mál að við verðum að sjá svo um að við komum reiðubúnir til leiksins. Við erum mættir á svæðið og allt er tilbúið. Tökum á því!"


Liverpool og Chelsea mætast í Istanbúl þar sem Liverpool vann Evrópubikarinn vorið 2005. Borgin er því í miklu dálæti hjá stuðningsmönnum Liverpool. Jürgen var spurður hvort hann vissi af þessu.

,,Ég veit að Istanbúl er í sérstöku dálæti hjá öllum stuðningsmönnum Liverpool. Auðvitað gleymir engin 2005. En nú er annað fólk á ferðinni. Við erum liðið sem tekur þátt í keppnistímabilinu 2019/20 fyrir hönd Liverpool og við erum býsna gott lið."

Jürgen og föruneyti komu til Istanbúl eftir hádegi í dag. Undir kvöld svaraði hann spurningum á blaðamannafundi eftir að Sadio Máne og Virgil van Dijk höfðu setið fyrir svörum. Eftir fundinn æfðu leikmenn Liverpool á Vodafone Park þar sem leikurinn fer fram. 

Liðshópur Liverpool er skipaður þessum leikmönnum. Adrian, Lonergan, Kelleher,  Fabinho, Van Dijk, Wijnaldum, Milner, Keita, Firmino, Mane, Salah, Gomez,  Henderson, Oxlade-Chamberlain, Lallana,  Shaqiri, Brewster, Robertson, Origi, Matip, Hoever, Alexander-Arnold og Elliott. Alisson Becker er auðvitað frá vegna meiðsla og Dejan Lovren fór ekki vegna veikinda. 

Liverpool og Chelsea ganga á hólm annað kvöld á Vodafone Park, heimavelli Besiktas, í Istanbúl. Vonandi fagna stuðningsmenn Liverpool aftur titli í Miklagarði eins og 2005!

Hér má sjá
myndir, af Liverpoolfc.tv, sem teknar voru þegar Liverpool kom til Miklagarðs í dag. 

Hér má sjá myndir sem teknar voru á æfingu Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan