| Sf. Gutt

Niðurtalning - 3. kapítuli


Þá er komið að þriðja og síðasta hluta niðurtalningarinnar. Nú verða fyrri leikir Liverpool um Stórbikar Evrópu rifjaðir upp.

+ 1977. Hamburger SV - Liverpool 1:1. Jökulkuldi og slydda gerði það að verkum að aðeins 16.000 áhorfendur mættu á leikinn. Mikið var gert úr leiknum enda var Kevin Keegan að leika gegn sínum gömlu félögum. Keller kom heimamönnum yfir en Liverpool sótti í sig veðrið og David Fairclough jafnaði með skalla þegar nokkuð var liðið á leikinn. Áhorfendur voru fegnir að komast heim úr kuldanum.

+ Liverpool - Hamburger SV 6:0 Kevin Keegan mætti í fyrsta skipti á Anfield Road eftir að hann yfirgaf Liverpool um sumarið. Honum var mjög vel tekið af áhorfendum sem voru 34.931. En leikmenn Liverpool voru ákveðnir í að sýna að liðið saknaði Kevin ekki og fóru algerlega á kostum. Phil Thompson kom liðinu yfir eftir 16 mínútur. Þá tók Terry McDermott við stjórninni og skoraði þrennu á 16 mínútna kafla sitt hvoru megin við leikhlé. Á síðustu fjórum mínútunum fullkomnuðu þeir David Fairclough og Kenny Dalglish stórsigur Liverpool. Sannkölluð sýning. The Kop var í hátíðarskapi og gerðu óspart góðlátlegt grín að Kevin Keegan eftir því sem leið á leikinn. Liverpool vann Stórbikarinn samtals 7:1.

+ 1978. Anderlecht - Liverpool 3:1. Liverpool náði sér ekki alveg á strik í þessum leik. Vercauteren kom heimamönnum yfir en Jimmy Case jafnaði með fallegu marki. Anderlecht komst aftur yfir fyrir hálfleik þegar Van Der Elst skoraði og á lokamínútunum skoraði hollenski landsliðsmaðurinn Rob Rensenbrink þriðja mark belgíska liðsins.

+ Liverpool - Anderlecht 2:1. Leikmenn Liverpool mættu ákveðnir til leiks og ætluðu að snúa dæminu við frá fyrri leiknum. Það bar til tíðinda fyrir leik að Ray Clemence gat ekki leikið vegna meiðsla og Steve Ogrizovic lék í markinu. Einn af fáum skiptum sem Ray var fjarverandi úr marki Liverpool. Kalt var í veðri og áhorfendur voru því í færra lagi eða 23.598. Eins var mikil þoka í Liverpoolborg og skyggni á Anfield Road var ekki gott. Leikbyrjun drógst um 15 mínútur á meðan dómarinn beið eftir því að þokunni létti. Eitthvað lagaðist skyggnið á þeim tíma en þó var það ekki upp á marga fiska. Völlurinn var erfiður yfirferðar vegna bleytu. Emlyn Hughes kom Liverpool yfir snemma leiks og Liverpool fékk mörg góð færi til að auka forskotið. En færin nýttust ekki og 19 mínútum fyrir leikslok jafnaði Van Der Elst fyrir belgíska liðið. Sex mínútum fyrir leikslok náði David Fairclough aftur forystu fyrir Liverpool en þetta sigurmark dugði ekki. Anderlecht vann Stórbikarinn samtals 4:3.

+ 1985. Juventus - Liverpool 2:0 Eins á þessum árum átti að leika tvo leiki en stíf leikjadagskrá gerði það að verkum að ekki vannst tími til þess. Niðurstaðan varð sú að einn leikur var leikinn og vann Juventus hlutkestið um að leikurinn færi fram á heimavelli þeirra. Ekki bætti úr skák að snjóalög um alla Evrópu gerðu það að verkum að leikurinn var í hættu fram á síðustu stundu. Fjölmargir sjálfboðaliðar náðu að moka snjó af vellinum í tæka tíð. Mikill áhugi var fyrir leiknum í Tórínó og 60.000 áhorfendur mættu. Leikmenn Liverpool hefðu líklega vonað að bylurinn hefði staðið enn um sinn. Liðið náði sér ekki á strik á freðnum vellinum. Pólverjinn Zbigniew Boniek skoraði bæði mörkin í leiknum. Juventus vann Stórbikarinn 2:0.


+ 2001. Liverpool - Bayern Munchen 3:2. Það var ljóst frá upphafi að Liverpool lék til sigurs og leikmenn liðsins voru ákveðnir í að bæta fimmta titlinum á árinu í safn félagsins. Öll mörkin báru vitni um kraftmikinn leik og eldsnöggar sóknir. John Arne Riise skoraði fyrsta markið á sínum gamla heimavelli eftir að Michael Owen brunaði upp hægri kantinn og gaf fyrir markið. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks skoraði Emile Heskey eftir að hafa brotist í gegnum vörn Bayern upp á eigin spýtur. Í raun gerði Michael Owen, sem var valinn maður leiksins í leikslok, út um leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks. Jamie Carragher sendi langt fram hægri kantinn, Michael stakk vörn Bayern af og skoraði af öryggi. Þýska liðið lagaði stöðuna með mörkum frá Hasan Salihamidzic og Carsten Jancker en sigur Liverpool var verðskuldaður og hefði getað verið stærri. Liverpool vann Stórbikarinn 3:2 og um leið sinn fimmta titil á árinu 2001. Áður hafði liðið unnið Deildarbikarinn, F.A. bikarinn, Evrópukeppni félagsliða og Góðgerðarskjöldinn.


+ 2005. Liverpool - CSKA Moskva 3:1. Annar leikur Liverpool um Stórbikarinn á á fimm árum. Liverpool var sterkara liðið frá upphafi en rússneska liðið komst yfir í fyrri hálfleik þegar Daniel Carvalho skoraði. Liverpool tók öll völd í síðari hálfleik en gekk illa að brjóta vörn CSKA á bak aftur. Það var ekki fyrr en Djibril Cissé kom inn á sem varamaður að Liverpool tókst að jafna. Þegar átta mínútur voru eftir kom löng sending fram. Varnarmaður reyndi að hreinsa en skaut í Djibril sem fékk boltann á silfurfati fyrir opnu marki og skoraði auðveldlega. Ekki var meira skorað í venjulegum leiktíma og það varð að framlengja. Eftir 13 mínútna leik í framlengingunni komst Liverpool yfir. Aftur var Djibril á ferðinni eftir að hafa fengið langa sendingu fram völlinn. Hann þurfti tvær tilraunir en hann náði frákasti eftir að varið var frá honum og skoraði. Eftir fjórar mínútur í síðari hálfleik framlengingarinnar gerði Liverpool út um leikinn. Djibril lék fram hægri kantinn og gaf hárnákvæma sendingu fyrir á Luis Garcia sem skallaði í markið. Þriðji sigur Liverpool í Stórbikarnum og hefur ekkert enskt lið unnið hann jafn oft! 


+ 2019. Liverpool - Chelsea.???? Í fyrsta skipti leiða tvö ensk lið saman hesta sína í leik um Stórbikar Evrópu. Liverpool leikur í annað sinn um Evróputitil í Istanbúl. Vonandi tekst jafn vel til og 2005 þegar Liverpool vann Evrópubikarinn þar eftir ævintýralegan sigur á AC Milan!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan