| Grétar Magnússon

Annað tap í Bandaríkjunum

Liverpool mætti Sevilla á Fenway Park í Boston á sunnudagskvöldið. Lokatölur voru 2-1 fyrir spænska liðinu.

Byrjunarliðið var þannig skipað: Lonergan, Alexander-Arnold, Phillips, Van Dijk, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Woodburn, Wilson, Origi.

Varamenn: Mignolet, Atherton, Fabinho, Lovren, Milner, Gomez, Brewster, Matip, Kent, Lewis, Jones, Hoever, Duncan, Larouci.


Athygli vakti að Andy Lonergan, sem kom nokkuð óvænt til félagsins rétt fyrir Bandaríkjaferðina byrjaði leikinn en auk hans byrjuðu þeir Henderson, van Dijk, Wijnaldum, Alexander-Arnold og Robertson allir sína fyrstu leiki á undirbúningstímabilinu. Þriðji varabúningur félagsins var notaður af leikmönnum í fyrsta sinn og er óhætt að segja að hann sé nokkuð flottur.

Liverpool byrjuðu betur í leiknum og Ben Woodburn var ekki mjög langt frá því að ná til boltans á fjærstöng eftir fyrirgjöf frá hægri. Divock Origi kom sér svo í ágætt færi en Sergio Rico markvörður Sevilla varði. Eftir þetta voru Spánverjarnir sprækari og á 13. mínútu gerði Longergan mjög vel þegar hann kom vel út á móti De Jong og varði skot hans. Á 38. mínútu náðu svo Sevilla menn að koma boltanum í netið þegar Nolito fékk sendingu inná teiginn, lagði boltan fyrir sig og þrumaði honum svo framhjá Lonergan.

Tveim mínútum fyrir hálfleik jöfnuðu hinsvegar okkar menn þegar Nat Phillips skallaði boltann áfram eftir hornspyrnu Alexander-Arnold, boltinn hafði viðkomu í varnarmanni en barst beint fyrir fætur Origi sem skoraði af stuttu færi.


Í fyrri hálfleik þótti mörgum nóg um hvað hörku leikmanna Sevilla varðar en æfingaleikir liða að sumri til eru yfirleitt spilaðir án mikillar hörku. Ever Banega hefði t.d. með réttu átt að fá rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks þegar hann rak olnbogann í Harry Wilson og sló svo til hans einnig. Banega var á gulu spjaldi þegar þetta gerðist en dómari leiksins aðhafðist ekkert. En staðan í hálfleik var 1-1 og bæði lið gerðu margar breytingar. Jürgen Klopp skipti út öllu byrjunarliðinu á meðan þjálfari Sevilla gerði níu breytingar, þar á meðal var fyrrnefndum Banega skipt útaf.

Sevilla voru sterkari til að byrja með í seinni hálfleik og Mignolet þurfti að vera vel á verði þegar hann varði skot frá Munir El Haddadi sem og frákastið frá Franco Vazquez. Á 68. mínútu spiluðu þeir Rhian Brewster og Curtis Jones vel saman og sá síðarnefndi lét verja frá sér í fínu færi. James Milner reyndi svo skot að marki eftir undirbúning Jones en varnarmaður komst fyrir skotið.

Þegar um korter var eftir af leiknum var ljótt atvik þegar Gnagnon fékk beint rautt spjald fyrir að sparka aftaní Larouci. Gnagnon gerði ekki neina tilraun til að þess að ná boltanum og greinilegt var að hann vildi bara stöðva hinn unga Larouci hvað sem það kostaði. Larouci þurfti að fara af velli eftir þetta og samherjar hans voru hreint ekki ánægðir með Gnagnon og þetta fólskulega brot.

Þrátt fyrir að vera manni færri náðu Sevilla að skora sigurmarkið í blálokin þegar El Haddadi sendi Pozo einan í gegn, hann lék á Mignolet og rúllaði boltanum í autt markið. Súrt að þurfa að sætta sig við tap í Boston og þá sérstaklega þegar leikmenn Sevilla virtust komast með að spila frekar hart. En hvað um það, undirbúningstímabilið heldur áfram og næsti leikur er gegn Sporting frá Portúgal í New York aðfaranótt fimmtudagsins 25. júlí.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan