| Grétar Magnússon

Tap gegn Dortmund

Liverpool mætti Dortmund í fyrsta æfingaleik sínum í Bandaríkjunum í nótt og voru lokatölur 3-2 fyrir þýska liðinu.

Byrjunarlið Jürgen Klopp var þannig skipað: Mignolet, Clyne, Matip, Gomez, Larouci, Fabinho, Milner, Oxlade-Chamberlain, Wilson, Kent, Origi.
Varamenn: Lonergan, Atherton, Van Dijk, Wijnaldum, Lovren, Henderson, Brewster, Robertson, Lewis, Phillips, Jones, Hoever, Woodburn, Alexander-Arnold.

Aðeins voru þrjár mínútur liðnar af leiknum þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Fyrirgjöf frá hægri olli Nathaniel Clyne vandræðum og hann náði ekki að hreinsa boltann frá í baráttu við Giovanni Reyna. Boltinn barst til Paco Alcacer sem þrumaði boltanum í netið. Joel Matip var svo ekki langt frá því að jafna metin skömmu síðar en skalli hans fór rétt framhjá. Á 10. mínútu áttu þeir Oxlade-Chamberlain og Harry Wilson gott samspil og Wilson sendi boltann yfir á fjærstöngina þar sem Ryan Kent var í fínu færi. Hann skaut að marki en Marwin Hitz markvörður Dortmund náði að verja boltann alveg út við stöngina.


Harry Wilson fékk næsta færi þegar hann fékk langa sendingu innfyrir frá Milner. Hitz kom hinsvegar vel út á móti, alveg við vítateigslínu og varði tilraun Wilson til að lyfta boltanum yfir hann. Á 35. mínútu kom svo jöfnunarmarkið þegar Fabinho fékk smá svæði fyrir utan teiginn, hann sendi innfyrir þar sem Ryan Kent gerði vel í að láta boltann fara til Wilson sem brást ekki bogalistin að þessu sinni og skaut hann boltanum hnitmiðað í fjærhornið.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks fengu Dortmund svo fínt færi þegar Götze var í fínu færi hægra megin á teignum en Mignolet varði skot hans. Staðan því 1-1 í hálfleik.

Dortmund gerði níu breytingar á sínu liði í hálfleik á meðan Klopp stillti upp óbreyttu liði. Þeir gulu voru sprækari í byrjun seinni hálfleiks og voru fljótir að breyta stöðunni í 3-1. Eftir hornspyrnu náði Thorgan Hazard að koma boltanum fyrir markið þar sem Delaney átti auðvelt verk fyrir höndum með að setja boltann í markið.

Skömmu síðar skoruðu þeir svo aftur þegar Larsen átti snyrtilega afgreiðslu framhjá Mignolet. Skömmu síðar skipti Klopp út öllum útileikmönnum sínum og fengu þeir Alexander-Arnold, Henderson, Robertson, Van Dijk og Wijnaldum allir þar með sínar fyrstu mínútur á undirbúningstímabilinu. Þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum var brotið á Ben Woodburn í teignum og Rhian Brewster fékk það hlutverk að taka vítaspyrnuna. Hann skoraði nokkuð örugglega úr spyrnunni og var þetta fjórða markið hans á undirbúningstímabilinu.

Lokafæri leiksins féll Dortmund í skaut þegar Mignolet varði frá Immanuel Pherai, lengra komust Liverpool menn ekki og var þetta því fyrsti tapleikurinn það sem af er sumri.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan