| Sf. Gutt

Af AfríkukeppninniAfríkukeppninni lauk í kvöld. Alsír og Senegal léku til úrslita í Kaíró höfuðborg Egyptalands. Alsír fékk óskabyrjun þegar Baghdad Bounedjah skoraði með skoti utan vítateigs eftir tvær mínútur. Skotið fór í varnarmann og sveif yfir markmann Senegal. Þetta var eina skot Alsír á markrammann í leiknum. Sadio Mané og félagar hans í Senegal reyndu hvað þeir gátu til að jafna en allt kom fyrir ekki þrátt fyrir góð færi. Alsír varð þar með Afríkumeistari 2019 og í annað sinn. Áður vann Alsír keppnina 1990. 

Sadio Mané var með bestu leikmönnum mótsins. Hann skoraði eina mark leiksins þegar Senegal vann Úganda í 16 liða úrslitum. Sadio lék tvo af þremur leikjum Senegal í riðlakeppninni og skoraði tvö mörk þar af annað úr víti þegar Senegal vann Keníu 3:0. Senegal var með Alsír í riðli og tapaði 1:0 fyrir þeim eins og í úrslitaleiknum. Í átta liða úrslitum vann Senegal Benín 1:0 og Túnis með sömu markatölu í undanúrslitum. 

Miklar vonir voru bundnar við landslið Egyptalands enda var það á heimavelli. Liðið vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni. Mohamed Salah skoraði tvö mörk í leikjunum þremur. Eitt í 2:0 sigri á Kóngó og annað þegar Egyptar unnu Úganda með sömu markatölu. Egyptaland féll úr leik í 16 liða úrslitum eftir 1:0 tap fyrir Suður Afríku. 


Ljóst er að tap Senegal í úrslitaleiknum er mikil vonbrigði fyrir Sadio Mané og félaga hans. Sadio sagði fyrir úrslitaleikinn að hann myndi glaður vilja skipta á sigri í Afríkukeppninni og Meistaradeildargullinu. Senegal hefur ekki unnið keppnina og tapaði áður í úrslitum 2002 í vítaspyrnukeppni fyrir Kamerún. Þá voru Salif Diao og El Hadji Diouf, fyrrum leikmenn Liverpool, í liði Senegal. 

Sadio Mané er kominn í sumarfrí þó seint sé. Hann fær kærkomna hvíld næstu vikur en missir af undirbúningstímabilinu með félögum sínum í Liverpool. Hann kemur þó vonandi úthvíldur og sterkur til leiks eftir fríið.


   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan