| Sf. Gutt

Af markmannsmálum


Markmannsmál Liverpool eru nokkuð flókin um þessar mundir. Einn hefur verið lánaður, tveir eru á meiðslalista og einum var óvænt boðið með til Ameríku. 


Simon Mignolet er aðalmarkmaður Liverpool í Ameríkuferðinni. Reiknað er með að hann verði áfram hjá Liverpool en það er þó ekki alveg öruggt. Hann er tilbúinn að vera áfram en gæti freistast til að fara ef félag þar sem hann fær að spila vill fá  hann. 


Írinn Caoimhin Kelleher er að ná sér eftir aðgerð á úlnlið. Hann er óheppinn að geta ekki tekið þátt í æfingaleikjunum en hann hefði örugglega spilað eitthvað. 

Kamil Grabara gerði nýjan samning við Liverpool um daginn. Pólverjinn fór ekki með til Bandaríkjanna því hann var lánaður til Huddersfield Town.

Pólverjinn Jakub Ojrzynski, sem er nýkominn til Liverpool, er eitthvað meiddur en er þó með í för til Ameríku. Hann valdi að ganga til liðs við Liverpool eftir að hafa verið til reynslu hjá félaginu. Hann æfði líka um tíma með Manchester United. Jakub kom frá Legia Varsjá. 

Dan Atherton sem spilaði úti lokakaflann á móti Tranmere í fyrsta æfingaleiknum fór með. Hann kom inn á gegn Bradford. 

Andy Lonergan var óvænt boðið með í Ameríkuferðina. Andy er þrautreyndur og hefur meðal annars leikið með Preston North End, Leeds United og Bolton Wanderes. Hann var hjá Middlesbrough og Rochdale í vetur en er nú án samnings og hver veit nema honum verði boðinn samningur. Það er þó ekki reiknað með því. 

Alisson Becker er auðvitað í sumarfríi eftir að hafa spilað í Suður Ameríkukeppninni. Hann kemur til æfinga eftir Ameríkuferðina.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan