| Grétar Magnússon

Sigur á Bradford

Annar æfingaleikur undirbúningstímabilsins var gegn Bradford City í gær þar sem Liverpool vann 1-3 sigur.

Byrjunarliðið var skipað eftirfarandi leikmönnum: Mignolet, Clyne, Phillips, Lovren, Larouci, Milner, Lallana, Oxlade-Chamberlain, Wilson, Kent, Brewster.

Dejan Lovren lék í fyrsta sinn á undirbúningstímabilinu eftir að hafa byrjað æfingar örlítið á eftir þeim allra fyrstu. Í hálfleik gerði svo Jürgen Klopp 10 breytingar og liðið sem hóf síðari hálfleik var þannig skipað: Mignolet, Hoever, Matip, Gomez, Lewis, Fabinho, Woodburn, Jones, Duncan, Origi og Millar. Auka varamenn voru þeir Atherton og Johnston.

Leikurinn var ekki einungis liður í undirbúningstímabili liðanna heldur einnig fjáröflun fyrir Darby Rimmer MND góðgerðarstofnunina. Stephen Darby fyrrum leikmaður Liverpool og Bradford neyddist til að leggja skóna á hilluna á síðasta ári þar sem hann greindist með MND sjúkdóminn (motor neurone disease).


Fyrsta mark leiksins kom á 13. mínútu þegar James Milner átti skot að marki sem James Vaughan, leikmaður Bradford, reyndi að skalla frá marki en tókst ekki betur til en svo að boltinn endaði í netinu. Tveim mínútum síðar var staðan orðin 0-2 þegar vítaspyrna var dæmd eftir brot á Ryan Kent í teignum. Milner fór að sjálfsögðu á punktinn og skoraði.

Harry Wilson fékk svo fínt færi en markvörður Bradford varði vel. Bradford héldu að þeir hefðu minnkað muninn rétt fyrir hálfleik þegar Ben Richards-Everton skoraði með skalla eftir aukaspyrnu en rangstaða var dæmd. Mignolet varði svo vel frá Vaughan og þriðja mark Liverpool leit dagsins ljós skömmu síðar. Alex Oxlade-Chamberlain tók á rás frá miðju í átt að marki og sendi til vinstri á Ryan Kent. Kent lagði boltann aftur inná teiginn á Oxlade-Chamberlain og hann skaut að marki. Varnarmaður komst fyrir skotið en boltinn barst til Rhian Brewster sem þrumaði boltanum í netið úr þröngu færi.

Eins og áður sagði gerði Klopp 10 breytingar í hálfleik. Þeir Curtis Jones og Liam Millar áttu ágætis tækifæri til að auka forystu gestanna en þeir náðu ekki að skora. Eina mark seinni hálfleiksins var svo heimamanna þegar Doyle skoraði úr vítaspyrnu níu mínútum fyrir leikslok. Varamarkmaðurinn Dan Atherton spilaði síðustu mínútur leiksins. 

Næst á dagskrá hjá Liverpool er æfingaferð til Bandaríkjanna þar sem leikið verður við Borussia Dortmund, Sevilla og Sporting frá Portúgal.

Áhorfendur á Valley Parade: 24.343. Fleiri áhorfendur hafa ekki verið á leik á Valley Parade frá því leikvangurinn var endurbyggður 1986.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan