| Sf. Gutt

Stórsigur í fyrsta æfingaleik

Evrópumeistararnir unnu stórsigur í fyrsta æfingaleik. Liverpool lagði Tranmere Rovers 0:6 á Prenton Park. Liðið spilaði stórvel í báðum hálfleikjum og hafði algjöra yfirburði frá upphafi til enda.

Líkt og fyrir síðustu keppnistímabil lék Liverpool fyrsta æfingaleikinn á móti Tranmere, grönnum sínum handan Mersey árinnar og var vel mætt á Prenton Park. Liverpool fékk óskabyrjun þegar Nathaniel Clyne skoraði með föstu skoti úr vítateignum í byrjun leiksins. Rhian Brewster skoraði svo með skalla af stuttu færi þegar vel var liðið á seinni hálfleikinn eftir fyrirgjöf Harry Wilson. Hann skoraði svo aftur á lokaandartökum hálfleiksins. James Milner átti fast skot sem markmaðurinn hélt ekki og Rhian skoraði. Það var bara tími fyrir upphafsspyrnuna eftir markið og þar með kominn hálfleikur. 

Rhian Brewster er talinn einn efnilegasti leikmaður Liverpool. Hann kom til leiks eftir slæm meiðsli undir vorið og vonast er til að hann láti til sín taka á leiktíðinni sem í hönd fer. Í það binda forráðamenn Liverpool vonir við að hann geti komist í aðalliðið.

Liðið sem Liverpool tefldi fram eftir hlé byrjaði vel og Curtis Jones skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Ben Woodburn. Divock Origi skoraði fimmta markið þegar hann tók snilldarlega við langri sendingu áður en hann lék á markmanninn og skoraði í autt markið. Mjög vel gert hjá Belganum. Bobby Duncan bætti sjötta markinu við þegar hann skoraði af stuttu færi. Fagnaði ungliðinn innilega. Sigurinn var öruggur og segja verður að leikmenn Liverpool voru mjög sprækir

Framherinn ungi Paul Glatzel byrjaði seinni hálfleikinn en varð fyrir því óhappi að meiðast og varð að fara af velli. Áfall fyrir þennan efnilega sóknarmann ef meiðslin eru alvarleg. Í hans stað í framlínunni kom Dan Atherton en hann er annars markmaður

Liverpool í fyrri hálfleik: Mignolet; Clyne, Phillips, Gomez, Larouci; Milner, Oxlade-Chamberlain, Lallana; Kent, Wilson og Brewster.

Liverpool í síðari hálfleik: Jaros; Hoever, Matip, Johnston, Lewis; Fabinho, Jones, Woodburn; Duncan, Glatzel (Atherton 78. mín.) og Origi.

Tranmere Rovers komst upp í þriðju deild í umspili í vor. Liðið hefur nú komist upp um deild tvö ár í röð og er á uppleið eftir að hafa unnið sér sæti í deildarkeppninni á nýjan leik fyrir ári. 






 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan