| Sf. Gutt

Daniel og Alberto halda á braut

Tilkynnt var í dag að þeir Daniel Sturridge og Alberto Moreno haldi á braut frá Liverpool. Samningar þeirra við félagið renna út í sumar. Þetta eru ekki ýkja óvænt tíðindi og reiknað var með að þeir myndu yfirgefa Liverpool núna í sumar. Þeir gætu ekki hafa endað betur hjá Liverpool því þeir urðu Evrópumeistarar á laugardaginn!Daniel Sturridge kom til Liverpool í janúar 2013 og hefur hann skorað 67 mörk í 160 leikjum. Alberto kom frá Sevilla sumarið 2014. Hann lék 141 leik og skoraði þrjú mörk. Báðir urðu Evrópumeistarar með Liverpool þó þeir hafi ekki komið inn á í úrslitaleiknum en þeir voru meðal varamanna.  


Jürgen Klopp hrósaði þeim félögum og kvaddi þá með fallegum orðum á Liverpoolfc.com og þakkaði þeim fyrir það sem þeir hafa lagt af mörkum frá því hann kom til Liverpool. ,,Þeir voru báðir hérna þegar ég kom sem framkvæmdastjóri. Alla tíð síðan hafa þeir, eins og aðrir, hjálpað til að ná stöðugleika og koma liðinu á rétta braut. Án þeirra væri liðið og félagið ekki í þeirri stöðu sem það er um þessar mundir. Ég óska báðum leikmönnunum alls hins besta og vona að þeir eigi eftir að njóta velgengni á næsta áfangastað sínum. Hverjir sem fá að njóta krafta þeirra eru lánsamir að fá framúrskarandi einstaklinga í sínar raðir. Við eigum auðvitað eftir að sakna þeirra en við kveðjum þá með þeim bestu orðum sem við eigum. Strákar! Þið farið héðan sem Evrópumeistarar!"

Það kemur í ljós seinna í sumar hvert þeir Daniel Sturridge og Alberto Moreno fara. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan