| Sf. Gutt

Sigurför um Liverpool!



Í dag var farin mikil sigurför um Liverpool. Leikmenn, þjálfarar, eigendur félagsins og aðrir í baklandi liðsins fóru um borgina. Talið er að um 750.000 manns hafi fylgst með sigurförinni. Íbúar Liverpool eru 552.000 talsins.


Flugvélin sem flutti lið Liverpool og Evrópubikarinn frá Madríd lenti á John Lennon flugvellinum upp úr hádegi að íslenskum tíma og sigurförin hófst um tveimur klukkutímum seinna. Ferðin hófst við Allerton og svo var ekið í sveig til vesturs og  niður að hafnarsvæðinu. Þar var ekið eftir breiðgötunni The Strand. Í miðbænum voru flestir samankomnir en alla leið þangað var fólk meðfram leiðinni sem ekin var. Flugeldum var skotið úr Liver byggingunni við hafnarsvæðið og rauð blys voru óspart notuð. Andrúmsloftið var rafmagnað og náði hápunkti þegar rúturnar þrjár fóru eftir The Strand. Eiginlega ólýsanlegt! 


Jürgen Klopp og leikmenn voru í skýjunum með viðtökur stuðningsmanna Liverpool.  Framkvæmdastjórinn sagðist varla geta lýst ferðalaginu með Evrópubikarinn. ,,Ég get eiginlega ekki lýst þessu og það féllu nokkur tár því það er svo ótrúlegt að sjá allt þetta fólk. Maður verður satt að segja hrærður þegar maður kemst í beint augsamband við fólkið og skynjar hversu mikla þýðingu þetta hefur fyrir það. Þetta er alveg frábært!"

Jordan Henderson fyrirliði Liverpool tók í sama streng. ,,Þetta er algjörlega magnað. Eftir teitið í gærkvöldi fórum við strax að hlakka til heimkomunnar. Það er magnað að koma aftur til baka með bikarinn og sýna stuðningsmönnunum hann."

Stórkostlegur endir á sigurhelginni!

Hér eru myndir frá sigurförinni af Liverpoolfc.com.





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan