| Sf. Gutt

Langbesta annað sætið!


Fyrir ári lauk keppni í Úrvalsdeildinni á Englandi. Eins og allir stuðningsmenn Liverpool muna þá endaði liðið með árangur sem telst met! Annað sætið var nefnilega langbesta annað sætið í sögu ensku knattspyrnunnar!

Manchester City varð Englandsmeistari með 98 sig en Liverpool kom einu stigi á eftir með 97 stig. Liverpool vann 30 leiki af 38, gerði sjö jafntefli og tapaði aðeins einum leik. 

Þessi stigafjöldi Liverpool, 97 stig, er sá mesti sem lið hefur náð í efstu deild á Englandi í öðru sæti. Reyndar hafa lið aðeins tvívegis fengið fleiri stig. Manchester City fékk 98 stig og á leiktíðinni 2017/18 setti liðið stigamet með 100 stig. 

Árangur Liverpool í öðru sæti hefði sem sagt alltaf nema tvísvar dugað til að vinna deildina. Aðeins 2018 og 2019 hefðu 97 stig ekki dugað til Englandsmeistaratitils. 


Sjö sinnum, fyrir utan Manchester City og Liverpool, hafa lið náð 90 eða fleiri stigum eftir að Úrvalsdeildin var stofnuð á leiktíðinni 1992/93. Manchester United fékk 92 stig á sparktíðinni 1993/94 en þá voru spilaðir 42 leikir. Þar eftir hafa verið spilaðir 38 leikir. Á keppnistímabilinu 1999/2000 náði United 91 stigi. Hið ósigrandi lið Arsenal hlaut 90 stig keppnistímabilið 2003/04. Chelsea setti svo nýtt stigamet á leiktíðinni á eftir þegar liðið fékk 95 stig. Á næstu sparktíð fékk Chelsea 91 stig. Á keppnistímabilinu 2008/09 endaði Manchester United með 90 stig. Chelsea vann svo deildina 2016/17 með 93 stigum.

Liverpool hefði unnið deildina öll þessi keppnistímabil með 97 stigin sem aðeins dugðu í annað sæti! Lygilegt!

Á keppnistímabilinu 1987/88 fékk Liverpool 90 stig í 40 leikjum. Það var hæsta stigatala liðsins fram að nýju mettölunni. Hér er miðað við þrjú stig fyrir sigur. 


Liverpool átti sigamet í efstu deild þegar leiknir voru 42 leikir. Þá voru tvö stig gefin fyrir sigur. Á leiktíðinni 1978/79 fékk Liverpool 68 stig. Liðið vann 30 leiki og gerði átta jafntefli. Það myndi reiknast yfir í 98 stig ef þrjú stig hefðu verið fyrir hvern sigur. 
Hér að neðan eru nokkur afrek frá keppnistímabilinu 2018/19 talin upp. Lygilegt að Englandsmeistaratitillinn hafi ekki unnist. 

- Liverpool fékk 97 stig.

- Það er mesti stigafjöldi hjá liði sem hafnar í öðru sæti. 


- Stigafjöldin hefði dugað til að verða Englandsmeistari í 117 af þeim 119 keppnistímabilum sem enska knattspyrnan nær yfir í sögunni. 

- Sem dæmi um afrekið má nefna að 85 stig hefðu dugað átta sinnum á síðustu 23 keppnistímabilum til að verða Englandsmeistari. Þetta er það árabil sem 20 lið hafa verið í Úrvalsdeildinni. 

- Liðið fékk fæst mörk á sig. 

- Alisson Becker hélt markinu oftast hreinu og fékk Gullhanskann. 

- Sadio Mané og Mohamed Salah deildu Gullskónum með Pierre-Emerick Aubameyang.

- Virgil van Dijk var kjörinn Knattspyrnumaður ársins. 

- Liverpool vann níu síðustu deildarleiki sína.

- Liðið tapaði ekki stigi í deildinni í 70 daga. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan