| Sf. Gutt

Þrír fengu Gullskó!

Þrír leikmenn fengu Gullskó fyrir að vera markahæstir í Úrvalsdeildinni á keppnistímabilinu. Tveir, Mohamed Salah og Sadio Mané, eru leikmenn Liverpool.

Þeir Mohamed og Sadio skoruðu 22 mörk hvor. Jafn þeim var Pierre-Emerick Aubameyang framherji Arsenal. Þeir Sadio og Pierre náðu Mohamed í síðustu umferðinni. Báðir skoruðu tvö mörk. Sadio skoraði bæði mörk Liverpool í 2:0 sigri á Wolves og Pierre skoraði tvívegis í 1:3 sigri Arsenal í Burnley. 

Þetta er í þriðja sinn sem þrír leikmenn deila markakóngstitli eftir að Úrvalsdeildin kom til. Þeir félagar eru allir frá Afríku. Mohamed er frá Egyptalandi, Sadio frá Senegal og Pierre kemur frá Gabon. Pierre hafði orð á því að það væri flott að deila markakóngstitlinum með tveimur leikmönnum frá Afríku. 

Jürgen Klopp sagði þegar hann frétti að þessir þrír hefðu endað markahæstir að þeir voru allir hans menn! Pierre lék undir stjórn Jürgen hjá Borussia Dortmund. Hann var markakóngur í efstu deild í Þýskalandi leiktíðina 2016/17.


Mohamed Salah fékk Gullskóinn annað árið í röð á Englandi en hann varð markahæstur á síðustu leiktíð með 32 deildarmörk. Þeir Mohamed og Sadio eru jafnir sem markakóngar Liverpool á leiktíðinni hingað til með 26 mörk. Vonandi eiga þeir eftir að bæta við mörkum í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni.  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan