| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Síðasti deildarleikurinn á leiktíðinni og hvað er hægt að biðja um meira en að eiga möguleika á að vinna Englandsmeistaratitilinn í honum og það á Anfield Roadaf öllum stöðum? Jú, reyndar væri betra að hafa tryggt sér titilinn en líklega myndu allir stuðningsmenn Liverpool hafa þegið þetta tækifæri sem gefst á morgun ef þeim hefði verið boðið það í upphafi leiktíðar. En hvað þarf til? Liverpool þarf að vinna Wolverhampton Wonderes og á sama tíma verður Manchester City að missa stig í útileik á móti Brighton and Hove Albion. Það þarf býsna mikið að gerast en á meðan möguleikinn er fyrir hendi trúir maður því að allt fari á besta veg. Annað er ekki hægt!


Liverpool er með 94 stig fyrir lokaumferðina og það er í raun bæði ótrúlegt og grátlegt að liðið sé ekki nú þegar búið að vinna deildina. Ekki vegna þess að liðinu hafi orðið mikið á í þeim 37 leikjum sem eru að baki. Stigatalan segir einfaldlega að liðið eigi að vera meistari. Að minnsta kosti í níu skiptum af hverjum tíu og rúmlega það. Fái Liverpool 97 stig hefur ekkert lið nema Manchester City á síðustu leiktíð og kannski þessari fengið fleiri stig. Þetta er lygilegt en segir um leið sína sögu um hvað Liverpool er með frábært lið og reyndar Manchester City líka. 


Ævintýrið á Anfield Road á þriðjudagskvöldið kom Liverpool í úrslitaleikinn um Evrópubikarinn annað árið í röð! Þessi leikur verður því ekki síðasti leikurinn á leiktíðinni eins og margir héldu. Annað dæmi um styrk Liverpool og hversu gríðarlega vel liðið hefur staðið sig á þessari sparktíð. En síðustu árin hefur Liverpool of oft fallið á síðustu hindruninni. Það er kominn tími til að lánið verði með Liverpool. 


Ég spái því að Liverpool vinni Wolves á morgun. Það verður ekki auðvelt að vinna Wolves sem er með mjög sterkt lið. Eins situr örugglega þreyta í leikmönnum Liverpool eftir rimmuna við Barcelona. En til að vinna titila og eiga möguleika að vinna titla þá verður að yfirstíga þreytu og sársauka. Leikmenn Liverpool munu gera það og vinna 3:1. Mohamed Salah, Divock Origi og Jordan Henderson skora mörkin. Ég trúi því að Jordan Henderson muni taka á móti Englandsmeistarabikarnum á Anfield seinni partinn á morgun! Það er frumskilyrði að halda trúnni!

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan