| Sf. Gutt

Við vorum afskrifaðir!


Nú ári eftir ævintýrið eftir Barcelona rifjar Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, upp að liðið hafi verið afskrifað fyrir leikinn. 

,,Þetta hlýtur að vera toppurinn. Þetta var ótrúleg kvöldstund. Strákarnir voru ótrúlegir frá upphafi til enda. Stemmningin á vellinum var engu lík. Ég held að margir hafi afskrifað okkur. En við höfðum trú á liðinu. Við vissum að ef við myndum leggja okkur alla fram þá gæti allt gerst. Þannig er knattspyrnan. Við einsettum okkur að berjast eins og ljón til loka leiksins. 

,,Þetta kvöld sönnuðum við að býsna margir höfðu á röngu að standa. Við sýndum að ef maður gefst ekki upp og heldur áfram að reyna þá geta magnaðir hlutir gerst og þannig er hægt að mynda kvöldstundir sem verða lengi í minnum hafðar.

Jürgen Klopp lagði leikinn upp fyrir piltana sína. Hann hamraði á því að öll von væri ekki úti þrátt fyrir 3:0 tap í Barcelona. Jordan segir að orð hans hafi haft mikið að segja. 

,,Ég held að hann hafi fulla trú á því að við gætum þetta. Það kom vel í ljós í því sem hann sagði fyrir leikinn áður en við komum á völlinn. Ég held að strákarnir hafi skynjað að hann hafði trú á þessu. Þetta viðhorf hans skapaði tiltrú hjá okkur. Hann sagði okkur að við ættum að njóta kvöldsins og kannski gætum við þá einn góðan veðurdag seinna meir sagt afabörnum okkar frá þessu einstöku kvöldi sem við hefðum upplifað. Framkvæmdastjórinn hefur innprenntað í okkur hugarfar sem snýst um að berjast á hverju sem gengur þar til flautað er til leiksloka."


Hugarfar Jordan Henderson passar fullkomlega inn í það sem framkvæmdastjórinn hans hefur einsett sér að fá leikmenn sína til að gera. Það er ekki tilviljun að Jordan er fyrirliði Liverpool!

,,Allan minn feril hef ég reynt hvað ég hef getað til að afsanna hrakspár fólks. Það á ekki eftir að breytast. Ég mun hafa það að leiðarljósi eins lengi og ég kem til með að spila knattspyrnu!"

Svona ná leikmenn árangi. Svona vinna knattspyrnulið sigra sem ekki á að vera hægt að vinna. Svona gerast kraftaverkin í sögu Liverpool Football Club. 


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan