| Heimir Eyvindarson

Frábær sigur á Chelsea

Liverpool vann 2-0 sigur á Chelsea á Anfield í dag og heldur þar með góðu lífi í draumnum okkar allra. Geggjaður sigur - geggjað lið. 

Fyrir leikinn var falleg stund á Anfield þar sem fórnarlamba Hillsborough harmleiksins var minnst, en á morgun eru 30 ár liðin frá þeim skelfilega atburði. 

Klopp gerði eina breytingu á liðinu frá síðasta leik, Matip kom inn í miðvörðinn fyrir Lovren sem settist á bekkinn.

Chelsea voru mjög þéttir og í rauninni var fyrri hálfleikur endalaust strit sem ekkert kom út úr. Liverpool var meira með boltann, en Chelsea voru ógnandi í skyndisóknum, sérstaklega Willian.

Mané og Salah áttu sæmileg hálffæri, en annars var lítið að frétta. Maður var að verða búinn með neglurnar og taugarnar þegar leikhléið kom loksins, sérstaklega eftir úrslitin hjá City fyrr í dag. Staðan 0-0 í hálfleik.

Það kom berlega í ljós í seinni hálfleik að það eru breyttir tímar hjá okkar ástkæra liði. Í fyrsta lagi er karakterinn magnaður - og auðvitað getan, en svo er líka einhver heillastjarna yfir okkur. Ég man bara ekki eftir því að jafn margir hlutir hafi fallið fyrir okkur eins og að undanförnu. Það er einhvernveginn allt stöngin inn þessa dagana. Einhver myndi segja að við ættum það inni. 

Á 51. mínútu var ísinn loksins brotinn og þvílík þolinmæðissókn. Til að gera langa sögu stutta endaði hún með því að Henderson sendi boltann á kollinn á Mané sem stangaði hann í netið af markteig. Kepa hafði hönd á boltanum, en það dugði ekki til. 

Aðeins 2 mínútum og 22 sekúndum síðar þurfti Spánverjinn að hirða boltann aftur úr netinu þegar Salah klíndi honum upp í samskeytin með einhverju magnaðasta skoti sem hefur sést á Anfield lengi lengi. Þvílíkt gullmark. 
Sarri brást við með því að setja Higuain inná og það lifnaði heldur betur yfir leik gestanna fyrir vikið. Næstu 10-15 mínúturnar voru alveg hrikalegar, Hazard komst einn í gegn og skaut í stöng og hefði getað skorað 1-2 mörk til viðbótar á langbesta kafla Chelsea í leiknum. Alveg ótrúlega erfiður kafli, en Liverpool tókst að girða sig í brók og ná tökum á leiknum aftur. Þar skipti kannski mestu að Klopp skipti Wijnaldum inná fyrir Keita á 66. mínútu. Miðjan styrktist allavega strax varnarlega við það. 

Eftir þetta 10-15 mínútna lífsmark Chelsea gerðist svosem ekki margt. Liverpool var mun nær því að bæta þriðja markinu við á lokamínútunum en gestirnir að skora. Bæði Firmino og Mané áttu t.d. fína spretti sem hefðu getað endað með marki. 

Niðurstaðan á Anfield í dag stórkostlegur 2-0 sigur. Frábær stemning á pöllunum og í öllu liðinu. Mikið óskaplega eigum við skilið að uppskera eitthvað í vor. 

Liverpool: Alisson, TAA, Matip, Van Dijk, Robertson, Keita (Wijnaldum á 66. mín.), Fabinho, Henderson (Milner á 76. mín.), Salah (Shaqiri á 89. mín.), Mané, Firmino. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Lovren, Sturridge, Origi.  

Maður leiksins:
 Ég á erfitt með að gera upp á milli manna í dag. Henderson var vissulega mjög sterkur og Fabinho steig heldur ekki feilspor á miðjunni. Vinnslan í okkar fremstu mönnum er líka alveg frábær, þeir vinna allir ótrúlega góða og mikilvæga varnarvinnu. Ég ætla að synda aðeins á móti straumnum og velja Salah mann leiksins. Hann var alltaf ógnandi og þetta mark hans var náttúrlega algert gull. 

Fróðleikur:

-Þetta var 200. leikur Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp og 112. sigurinn. Það er vinningshlutfall upp á 56%. Ef við horfum bara á deildina þá er vinningshlutfallið 59% (82 sigrar í 140 leikjum) sem er besti árangur framskvæmdastjóra Liverpool frá árinu 1896. Já 1896. 

-Roberto Firmino er sá leikmaður sem Klopp notar mest, en hann hefur leikið 181 af þessum 200 leikjum. Þar á eftir koma Milner með 161 leik, Wijnaldum með 131, Henderson með 128 og Lovren 124. 

-Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Chelsea á Anfield síðan 2012. 

-Liverpool er nú komið með 85 stig í deildinni og vantar þar með aðeins eitt stig upp á að jafna stigamet liðsins í Úrvalsdeild frá tímabilinu 2008-2009. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan