| Sf. Gutt

Furðulegt sigurmark!

Fyrir einu ári var barátta Liverpool og Manchester City um Englandsmeistaratitilinn í hámarki. Furðulegt sigurmark kom á lokamínútu leiks Liverpool og Tottenham Hotspur á Anfield. 


Roberto Firmino kom Liverpool yfir með skalla eftir 16 mínútur þegar hann skallaði fyrirgjöf Andrew Robertson í markið. Liverpool var lengst af betra liðið en þegar 20 mínútur voru eftir jafnaði Lucas Moura. 


Liðin skiptust á að sækja en á síðustu mínútu leiksins fékk Liverpool horn frá vinstri. Horn Trent Alexander-Arnold var skallað frá. Andrew fékk boltann fyrir utan vítateiginn og sendi aftur á Trent sem gerði á ný tilraun til að gefa fyrir. Sending hans rataði yfir á fjærstög þar sem Mohamed Salah skallaði þvert fyrir markið af stuttu færi. Hugo Lloris fékk boltann beint á sig en missti hann á ótrúlegan hátt frá sér. Boltinn hrökk af fingurgómum Frakkans og út í markteiginn. Þar rakst boltinn í Toby Alderweireld sem vissi ekkert hvað var í gangi og af honum rúllaði boltinn yfir marklíununa fyrir framan The Kop! Sigur Liverpool í höfn!

Bill Shankly sagði áður fyrr á árum að áhorfendur á The Kop hefðu oft sogað boltann inn í markið þegar mikið lá við og tryggt Liverpool sigur. Þetta furðulega mark var fullkomið dæmi um slíkt mark!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan