| Sf. Gutt

Meiðslafréttir


Enginn leikmaður Liverpool virðist hafa meiðst í landsleikjum síðustu daga og er það vel. Reyndar eru nokkrir sem hafa verið meiddir að braggast.


Joe Gomez er farinn að æfa á nýjan leik en hann brákaðist á fæti í byrjun desember. Það kemur í ljós hversu lengi Joe verður að koma sér í gang. Hann var búinn að spila frábærlega í vörninni við hliðina á Virgil van Dijk.


Alex Oxlade-Chamberlain er farinn að æfa eftir að hafa meiðst síðasta vor en það kom aðeins bakslag í framfarir hans þegar hann tognaði lítilsháttar í leik með varaliði Liverpool um daginn. Hann er búinn að jafna sig og er að fara að æfa aftur. Alex á þó nokkuð í land með að geta spilað alvöru leiki. 


Trent Alexander-Arnold fékk frí frá landsleikjum vegna eymsla í baki. Hann er búinn að vera í sjúkraþjálfun og hvíld og er á batavegi. Þó mun ekki vera alveg víst hvort hann geti spilað á móti Tottenham Hotspur á sunnudaginn. En hvíldin hefur örugglega gert honum gott.

 

Xherdan Shaqiri fékk líka frí frá landsleikjum. Hann hefur verið slæmur í nára. Hvíldin kom honum til góða og hann mun vera að komast á skrið. 


Dejan Lovren meiddist aftan í læri í janúar. Landsleikjahléið kom honum vel en ekki vegna hvíldar því hann lék sinn fyrsta leik eftir meiðslin með landsliði Króatía. Hann var búinn að vera á bekknum hjá Liverpool í síðustu leikjum en hafði ekki spilað. 

Meiðslafréttirnar eru því góðar og það verður gott að fá menn, sem hafa verið meiddir, aftur inn í liðshópinn. Ekki mun af veita á lokasprettinum á leiktíðinni. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan