| Sf. Gutt

Steven Gerrard með sigurmark!Steven Gerrard er ekki dauður úr öllum æðum og í dag skoraði hann sigurmark fyrir Liverpool á Anfield eins og hann hefur svo oft áður gert. Goðsagnir Liverpool unnu goðsagnir AC Milan 3:2 í skemmtilegum leik sem mátti segja að væri endurtekning á úrslitaleiknum um Evrópubikarinn 2005.

Kenny Dalglish stýrði liði Liverpool og hafði Ian Rush sér til aðstoðar. Elsti leikmaður Liverpool Alan Kennedy, sem er 64 ára, fór fyrstur af leikvelli og var vel klappað fyrir honum. Alan tryggði Liverpool Evrópubikarinn bæði 1981 og 1984. Liverpool komst yfir þegar Robbie Fowler sneiddi boltann í markið af stuttu færi eftir fyrirgjöf Glen Johnson og mark hans skildi liðin að í hálfleik. 

Liverpool komst í 2:0 snemma í síðari hálfleik þegar Djibril Cisse skoraði úr vítateignum eftir sendingu frá Patrik Berger. Milan komst inn í leikinn þegar Andrea Pirlo skoraði beint úr aukaspyrnu. Ítalska liðið jafnaði svo metin þegar Giuseppe Pancaro skoraði með langskoti. 


Allt stefndi í jafntefli þegar komið var fram á lokamínútuna. Steven Gerrard fékk þá boltann utan við vítateginn. Hann lék fram að vítateignum, sneri af sér varnarmann og skoraði með skoti neðst í bláhornið stöng og inn! Fallegt sigurmark og eins og svo oft áður skoraði Steven fyrir framan Kop stúkuna. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu vel. Fyrirliðinn hefur engu gleymt!

Líkt og 2005 hafði Liverpool betur á móti AC Milan og það var greinilegt að leikmönnum Liverpool líkaði það mjög vel. Góður dagur á Anfield!

Liverpool: Jerzy Dudek, Glen Johnson, Jamie Carragher, Sami Hyypia, Daniel Agger, Alan Kennedy, Björn Tore Kvarme, Steven Gerrard, Luis Garcia, Dirk Kuyt og Robbie Fowler. Varamenn: Sander Westerveld, Steve McManaman, Jason McAteer, John Aldridge, Djimi Traore, Patrik Berger, Djibril Cisse, Salif Diao, Vladimir Šmicer og Michael Owen.

Áhorfendur á Anfield Road: Rúmlega 50.000. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan