| Sf. Gutt

Á toppinn!


Liverpool vann í dag mikilvægan 1:2 útisigur á Fulham. Sigurinn kom Liverpool í efsta sæti deildarinnar og þar verður liðið á meðan komandi landsleikjahlé stendur yfir og vonandi lengur!

Liverpool kom til leiks eftir að hafa unnið það afrek að hafa slegið þýsku meistara síðustu sex ára Bayern München út úr Meistaradeildinni og það á þeirra eigin heimavelli. Adam Lallana, sem stóð sig vel gegn Burnley um síðustu helgi, kom inn í liðið og eins Fabinho Tavarez sem kom inn á sem varamaður í München fyrir Jordan Henderson sem ekki var í leikmannahópnum. Í liði Fulham var Ryan Babel, fyrrum leikmaður Liverpool. Hann skaut upp kollinum hjá Fulham í byrjun árs. Hann hefur náð sér á strik á seinni árum og meira að segja komist í hollenska landsliðið. 

Liverpool hafði öll tök á leiknum frá byrjun. Heimamenn voru aftarlega á vellinum og reyndu að halda sínu. Þeir eru illa staddir í fallbaráttunni og skiljanlegt að þeir væru varkárir. Það var því samkvæmt gangi leiksins þegar Liverpool komst yfir á  26. mínútu. Sadio Mané fékk boltann úti til vinstri, spilaði þríhyrning við Roberto Firmino og smellti boltanum í markið þegar hann fékk hann frá Brasilíumanninum. Eldsnöggt spil og örugg afgreiðsla hjá Senegalnum sem er óstöðvandi um þessar mundir. Fulham ógnaði marki Liverpool aldrei og mark Sadio skildi liðin að í leikhléi. 

Fyrri hálfleikur gekk svipað fyrir sig og sá fyrri framan af. Á 52. mínútu sendi Andrew Robertson góða sendingu fyrir en Georginio Wijnaldum skallaði yfir úr upplögðu færi. Litlu síðar ógnaði Virgil van Dijk upp úr horni en Sergio Rico varði. Fulham fór að færa sig upp á skaftið eftir því sem leið á hálfleikinn en án þess að ógna verulega. Á 73. mínútu átti Sadio skalla aftur fyrir sig eftir horn en boltann fór í slána og yfir. 

Jmaes Milner og Divock Origi komu inn á sem varamenn rétt áður og fyrsta snerting James fór illa. Hann hitti boltann illa sem fór í átt að marki Liverpool. Virgil var fyrstur að boltanum. Ryan Babel sótti að honum og Virgil ákvað að skalla aftur á Allison Becker. Skallinn var of laus og Alisson ekki nógu ákveðinn í hvað hann ætlaði að gera. Það endaði með því að boltinn hrökk af Allison og fyrir fætur Ryan sem gat ekki annað en skorað í autt markið. Það var þó helst að sjá að hann hefði ekki nokkurn áhuga á að skora á móti gamla liðinu sínu og markinu fylgdi engin gleði hjá Hollendingnum! Hinir mögnuðu Alisson og Virgil gátu nagað sig í handarbökin og staðan allt í einu jöfn. 

Sem betur fer var staðan ekki lengi 1:1. Mohamed Salah fékk langa sendingu inn í vítateginn. Hann skaut að marki en Segio varði. Skotið var ekki fast en Segio hélt samt ekki boltanum sem hrökk út í vítateiginn í átt að Sadio. Segio leist ekki á blikuna á fálmaði í Sadio sem féll við. Dómarinn dæmdi réttilega víti. Mikil mistök hjá markmanni Fulham sem hefði átt að láta Sadio í friði því ekki var mikil hætta á ferðum. James Milner tók vítið og skoraði af miklu ögyggi með skoti beint í mitt markið. Hann fagnaði ógurlega fyrir framan stuðningsmenn Liverpool sem voru fyrir aftan markið sem hann skoraði í. 

Níu mínútur eftir og nú var að halda fengnum hlut. Liverpool fékk tvívegis tækifæri til að innsigla sigurinn undir lokin. Fyrst átti Georginio skot rétt framhjá frá vítateig. Því næst fékk Liverpool hraðaupphlaup. Sadio lék fram og við vítateiginn sendi hann til vinstri á Mohamed en Sergio varði skot hans. Fulham fékk ekki færi en Rauðliðar gátu ekki fagnað fyrr en dómarinn flautaði til leiksloka. 

Seiglusigur sem varð að vinnast! Sigurinn var líka sterkur þar sem hann kom Liverpool í efsta sætið þar sem Manchester City lék ekki um helgina. Liðið var upptekið í FA bikarnum og Liverpool varð að nýta tækifærið á að ná efsta sætinu. Sem betur fer tókst það og Liverpool verður í efsta sætinu að sinni og vonandi sem lengst!

Fulham: Rico, Fosu-Mensah (Christie 73. mín.), Chambers, Ream, Bryan, Anguissa, Seri (Sessegnon 65. mín.), Ayite, Cairney (Kebano 82. mín.), Babel og Mitrovic. Ónotaðir varamenn: Fabri, Odoi, McDonald og Vietto.

Mark Fulham: Ryan Babel (74. mín.).

Gul spjöld: André-Frank Zambo Anguissa  og Joe Bryan.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Wijnaldum, Lallana (Milner 72. mín.), Salah (Sturridge 90. mín.), Firmino (Origi 72. mín.) og Mane. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Lovren, Moreno og Shaqiri.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (26. mín.) og James Milner, víti, (81.mín.).

Gult spjald: Fabinho Tavarez.

Áhorfendur á Craven Cottage: 25.043.

Maður leiksins: Sadio Mané. Enn og aftur skoraði hann og 11 mörk í 11 leikjum segja sína sögu um hversu magnaður hann hefur verið síðustu vikurnar. Hann fékk líka vítaspyrnuna sem réði úrslitum í leiknum. 

Jürgen Klopp: Ég hef engar áhyggjur af því að taugaspenna sé að hrjá leikmenn mína. Ég vil auðvitað alltaf að allt sé fullkomið en það er sjaldnast svo. Fólk segir að við eigum að vera meira sannfærandi í leikjum eins og þessum en við erum bara svona. Við erum í miðri þróun og erum ekki komnir út á enda í þróunarferlinu.   

Fróðleikur

- Liverpool náði efsta sæti deildarinnar. 

- Sadio Mané skoraði 20. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Hann og Mohamed Salah eru nú með jafn mörk mörk. 

- James Milner skoraði sjötta mark sitt á leiktíðinni. 

- Divock Origi spilaði í 90. sinn fyrir Liverpool. Hann hefur skorað 24 mörk. 

- Virgil van Dijk lék sinn 60. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora fimm mörk. 

Hér er viðtal við Jürgen Klopp sem tekið var eftir leik.



 







 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan