| Grétar Magnússon

Ungliðar í undanúrslit

U-18 ára lið Liverpool komst í undanúrslit FA Youth Cup í gærkvöldi með 5-1 stórsigri á Bury. Liðið mætir Watford á heimavelli í undanúrslitum.


Þetta var fyrsti útileikur liðsins í keppninni en fram til þessa höfðu þeir sigrað Portsmouth, Accrington Stanley og Wigan Athletic á heimavelli. Barry Lewtas, stjóri U-18 ára liðsins stillti upp nokkuð sterku liði en það var þannig skipað:

Markvörður var Vitezslav Jaros. Varnarmenn þeir Jack Walls, Rhys Williams, Morgan Boyes og Yasser Larouci. Á miðjunni voru þeir Leighton Clarkson (Neco Williams, 78. mín.), Abdi Sharif, Elijah Dixon-Bonner (Edvard Tagseth, 78. mín.) og Jake Cain, frammi voru svo þeir Bobby Duncan (Fidel O'Rourke, 87. mín.) og Paul Glatzel sem hafa verið ansi iðnir við markaskorun á tímabilinu.

Liverpool komst yfir með marki frá Glatzel, hans 25. mark á tímabilinu og Jake Cain bætti svo við öðru marki rétt fyrir hálfleik. Glatzel bætti við öðru marki sínu í leiknum snemma í síðari hálfleik og allt leit út fyrir stórsigur Liverpool. Heimamenn í Bury náðu þó að klóra í bakkann með marki frá Joseph Adams. Þeir komust þó ekki lengra en þetta því 17 mínútum fyrir leikslok skoraði Rhys Williams fjórða mark Liverpool og Bobby Duncan skoraði svo lokamark leiksins undir lokin. Í því marki hefði Glatzel getað fullkomnað þrennuna en hann sýndi mikla óeigingirni og renndi boltanum frekar á Duncan sem átti auðvelt verk fyrir höndum og rúllaði boltanum í markið.

Gengi U-18 ára liðsins hefur verið mjög gott það sem af er tímabili og situr liðið í efsta sæti Norður-riðils úrvalsdeildar U-18 ára liða. Liðið hefur 38 stig eftir 16 leiki en Derby County eru í öðru sæti, þrem stigum á eftir og eiga leik til góða. Um síðustu helgi gjörsigruðu ungu strákarnir lið Blackburn í deildinni 7-2 þar sem Bobby Duncan skoraði þrennu en Paul Glatzel tók ekki þátt í leiknum.

Það verður spennandi að fylgjast áfram með liðinu það sem eftir er tímabils og skemmtilegt að liðið sé, líkt og aðalliðið, í baráttunni um að vinna deildarmeistaratitil sem og bikar.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan