| Sf. Gutt

Í minningu!


Á sunnudaginn var eitt ár liðið frá því Ian Ross, fyrrum leikmaður Liverpool, lést. Enginn fyrrum leikmaður Liverpool hefur haft meiri tengsl við Ísland. 

Ian fæddist í Glasgow í Skotlandi 26. janúar 1947. Hann gerði atvinnumannasamning við Liverpool 1965 og lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu 1967. Ian þótti mjög fjölhæfur og gat bæði leikið sem miðjumaður og í vörn.  Hann var aldrei fastamaður en lék 69 leiki með Liverpool og skoraði fjögur mörk.

Árið 1972 var Ian seldur til Aston Villa. Þar átti hann góðan feril og var fyrirliði. Hann lék með Villa til 1976 og tók á móti Deildarbikarnum þegar Villa vann hann 1975 eftir 1:0 sigur á Norwich City á Wembley. Villa var í þriðju deild þegar Ian kom þangað en var komið upp í efstu deild þegar hann fór. Ian lék seinna sem lánsmaður hjá Notts County og Northampton Town. Síðustu félögin á ferli hans voru Peterborough, Wolverhamton Wanderes og Hereford. 

Þjálfaraferill hófst hjá Wolves þegar hann leysti af um tíma sem framkvæmdastjóri en svo lá leiðin til Íslands 1984. Þar tók hann við Val og stjórnaði liðinu til 1987. Frá 1988 til 1990 þjálfaði hann KR. Ian fór þá til Englands og stýrði Huddersfield 1992/93. Hann kom svo aftur til Íslands og þjálfaði Keflavík hluta af sumrinu 1994. Ian endaði þjálfaraferilinn hjá Berwick Rangers í Skotlandi.

Ian náði mjög góðum árangri hjá Val og gerði liðið að Íslandsmeisturum 1985 og 1987. Hin tvö árin sem hann stýrði Val varð liðið í öðru sæti. Liðið varð líka Reykjavíkumeistari 1984 og 1987 á valdatíma hans. KR hafnaði í öðru sæti í deildinni 1990 og varð Reykjavíkurmeistari 1988, 1989 og 1990 undir stjórn Ian. 

Ian Ross sagði Bill Shankly hafa mótað sig sem leikmann og eins hvað varðaði aðferðir hans þegar hann fór sjálfur að fást við þjálfun. Hann sagði þetta í viðtali í Íslensk knattspyrna 1987 eftir að Valur varð Íslandsmeistari í annað sinn undir stjórn hans. ,,Galdurinn er að æfa vel - og hvíla vel. Á þetta hef ég alla tíð lagt áherslu, svona er ég alinn upp hjá Liverpool og þar hafa verkin talað. Á meðan árangur næst er hægt að vera viss um að það sem maður er að gera sé það rétta."

Ian Ross, eða Roscoe eins og hann var kallaður, var mjög vel liðinn hér á landi og eignaðist marga góða vini. Hann var mjög snjall þjálfari og sérstaklega bar árangur hans hjá Val því vitni. Margir sem hann þjálfaði á Íslandi segja að hann hafi haft góð áhrif á þá og þeir bætt sig sem leikmenn undir leiðsögn Ian Ross!

Hér er myndband sem Liverpool FC sendi frá sér til minningar um Ian. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan