| Sf. Gutt

Öld liðin frá fæðingu Bob Paisley!


Í dag, 23. janúar 2019, er öld liðin frá því Bob Paisley fæddist. Hann er sigursælasti framkvæmdastjóri í sögu Liverpool og þótt víðar væri leitað. Bob fæddist í þorpinu Hetton-le-Hole á norðaustur Englandi. Nærri þorpinu var náma sem pabbi Bob vann í. Bob vann þar um tíma sjálfur eftir að hann lauk námi í barnaskóla 14 ára. Hann hafði ekki áhuga á að vinna í námunni og fór á samning sem múrari. 

Snemma kom í ljós að Bob var efnilegur í knattspyrnu. Sunderland var stærsta liðið nærri Hetton-le-Hole og Bob fór þangað til reynslu en þar á bæ töldu menn hann ekki nógu góðan. Hann fékk loks samning við Bishop Auckland sem var sterkt áhugamannalið og lék hann með liðinu í tvö keppnistímabil. Þaðan keypti Liverpool hann árið 1939. Bob, eins og margir aðrir ungir knattspyrnumenn, missti sex ár af knattspyrnuferli sínum vegna Síðari heimsstyrjaldarinnar. Bob var í breska hernum og barðist í stríðinu. Eftir stríðið hófst knattspyrnuiðkun á nýjan leik og Liverpool varð fyrst liða Englandsmeistari eftir stríð þegar liðið vann deildina 1946/47. Bob var lykilmaður á miðjunni. Hann lagði skóna á hilluna 1954. 

Ferill Bob Paisley hjá Liverpool verður aldrei viðjafnaður. Hann var starfsmaður Liverpool frá 1939 og næstu hálfa öldina. Fyrst sem leikmaður, þá þjálfari, sjúkraþjálfari, aðstoðarframkvæmdastjóri, framkvæmdastjóri og loks sem stjórnarmaður. Ferill hans er einstakur hvernig sem á hann er litið!


Bob Paisley OBE


Fæðingardagur: 23. janúar 1919.


Dánardægur: 14. febrúar 1996.



Leikmaður Liverpool:
1939 til 1954. 


Leikir með Liverpool: 277.


Mörk með Liverpool:
12.


Titill: Bob varð enskur meistari með Liverpool leiktíðina 1946/47. 


Framkvæmdastjóri Liverpool:
1975 til 1983.


Afrek sem framkvæmdastjóri.


Englandsmeistari: 1975/76, 1976/77, 1978/79, 1979/80, 1981/82 og 1982/83.


Deildarbikarmeistari: 1980/81, 1981/82 og 1982/83.


Góðgerðarskjöldurinn: 1974, 1976, 1977 (deilt), 1979, 1980 og 1982.


Evrópukeppni meistaraliða:
1976/77, 1977/78 og 1980/81.


Evrópukeppni félagsliða: 1975/76.


Stórbikar Evrópu: 1977.


Framkvæmdastjóri ársins:
1976, 1977, 1979, 1980, 1982 og 1983.


Framkvæmdastjóri mánaðarins:
 Alls 14 sinnum.


Bob Paisley var Kenny Dalglish til ráðgjafar þegar Kenny tók við framkvæmdastjórn sumarið 1985. Kenny stýrði Liverpool til sigurs í deild og bikar á sinni fyrstu leiktíð 1985/86. Bob átti sinn þátt í því afreki þótt það sé ekki á afrekaskrá hans. Bob endaði starfsferil sinn hjá Liverpool með því að sitja í stjórn Liverpool Football Club frá 1983 til 1992.




Aldarártíðar Bob Paisley hefur verið minnst á ýmsan hátt hjá Liverpool. The Kop myndaði myndverk fyrir leik Liverpool og Crystal Palace síðasta laugardag og nokkrir fyrrum leikmenn hans komu út á völlinn í hálfleik. Eiginhandaráritun Bob var prentuð aftan á kragann á búningi Liverpool sem liðið hefur notað á þessari leiktíð. Þetta var gert til að heiðra 100 ára ártíð hans.

Hér er eitt og annað um feril Bob Paisley á Liverpoolfc.com.

Hér er sagt frá ferli Bob á Liverpoolfc.com.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan