| Grétar Magnússon

Sigur með minnsta mun

Liverpool heimsótti Brighton og náði að taka með sér heim stigin þrjú eftir 0-1 sigur. Eina mark leiksins skoraði Mohamed Salah úr vítaspyrnu.

Eins og við var að búast var Fabinho í miðri vörninni ásamt Virgil van Dijk. Jürgen Klopp ákvað svo að hafa Xerdan Shaqiri með frá byrjun en hann var á miðjunni ásamt Wijnaldum og Henderson. Joel Matip var kominn í nógu gott stand til að setjast á bekkinn og vonandi eru meiðslavandræði miðvarða vonandi frá í bili þó þeir Joe Gomez og Dejan Lovren séu ennþá frá. Það styttist að minnsta kosti í endurkomu þeirra. Sadio Mané spilaði sinn 100. leik fyrir félagið og Virgil van Dijk þann 50.

Heilt yfir spilaðist leikurinn nákvæmlega eins og við mátti búast fyrirfram. Liverpool mun meira með boltann gegn þéttum varnarmúr Brighton manna. Lítið markvert gerðist í fyrri hálfleik og engin alvöru færi litu dagsins ljós. Xerdan Shaqiri komst þó næst því að skora þegar hann, af öllum mönnum, átti skalla í teignum sem fór rétt framhjá fjærstönginni. Heimamenn voru gríðarlega vel skipulagðir í varnarleik sínum og uppspil Liverpool manna var ekki nógu hratt þegar boltinn vannst aftarlega á vellinum. Staðan markalaus í hálfleik.

Fimm mínútur voru svo liðnar af síðari hálfleik þegar eina mark leiksins kom. Hann átti þó ágætt skot skömmu áður sem var varið. En vítaspyrna var dæmd þegar Salah lék með boltann inní teig, sneri að marki þar sem Pascal Groß togaði í treyju Salah sem kippti honum úr jafnvægi. Dómarinn var ekki lengi að benda á punktinn og Salah bjó sig undir að taka spyrnuna. Hún var örugg en markvörður Brighton fór þó í rétt horn. Heimamenn færðu sig aðeins framar á völlinn eftir þetta og Fabinho gerði vel þegar hann komst fyrir skot Groß í teignum. En heilt yfir er ekki hægt að segja að vörn Liverpool hafi lent í teljandi vandræðum í leiknum. Fleiri hálffæri litu dagsins ljós eftir því sem leið á leikinn en Gini Wijnaldum var ekki langt frá því að bæta við marki þegar skot hans fyrir utan teig smaug rétt framhjá. Leikurinn fjaraði hægt og rólega út og fyrsta sigri ársins var vel fagnað í leikslok.


Brighton: Button, Montoya, Duffy, Dunk, Bong, March (Knockaert, 66. mín.), Groß (Kayal, 79. mín.), Stephens, Pröpper, Locadia, Murray (Andone, 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Steele, Bruno, Balogun, Sanders.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Fabinho, van Dijk, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Shaqiri (Milner, 72. mín.), Firmino, Mané (Keita, 90. mín.), Salah (Origi, 90+4 mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Moreno, Matip, Camacho.

Mark Liverpool: Mohamed Salah (50. mín. vítaspyrna).

Maður leiksins: Sem fyrr er ekki hægt að líta framhjá Virgil van Dijk en hann stýrði vörninni af sinni alkunnu snilld í leiknum. Ekki er hægt að segja að neinn leikmaður hafi átt frábæran leik en það er yndi að fylgjast með honum á velli.

Jürgen Klopp: ,,Við stjórnuðum leiknum betur þegar við skoruðum markið. Við hefðum getað gert betur en það er í lagi mín vegna því takmarkið var að vinna leikinn. Við þurftum að standa okkur vel, ná í stigin og það gerðum við."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt 14. deildarmark á leiktíðinni.

- Þetta var í 50. sinn sem Liverpool heldur markinu hreinu undir stjórn Jürgen Klopp í úrvalsdeildinni. 42% af þessum leikjum hafa verið með van Dijk í vörninni.

- Mohamed Salah hefur skorað fyrsta mark leiksins í deildinni níu sinnum á tímabilinu, oftar en nokkur annar leikmaður.

- Liverpool hafa nú 7 stiga forskot á toppnum með 57 stig en Manchester City eiga leik til góða.

- Brighton eru áfram í 13. sæti deildarinnar eftir leiki dagsins.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan