| Sf. Gutt

Góður sigur á botnliðinu


Nú upp úr hádeginu komst Liverpool upp í efsta sætið í Úrvalsdeildinni með góðum sigri á botnliði deildarinnar. Liverpool vann Fulham 2:0 og hefur enn ekki tapað leik í deildinni. 

Liverpool olli miklum vonbrigðum í Serbíu þegar liðið tapaði í vikunni fyrir Rauðu stjörnunni. Það var því ekki að undra að Jürgen Klopp skyldi gera nokkrar nokkrar breytingar á liðinu sínu. Xherdan Shaqiri kom inn í liðið, eins og flestir áttu von á, enda fékk hann frí frá Serbíuferðinni. Jordan Henderson kom á bekkinn eftir meiðsli. Fyrir leikinn var þess minnst í vetrarsólinni að í dag er öld liðin frá því Fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Sjö leikmenn Liverpool féllu í styrjöldinni. 

Þó svo Fulham væri í neðsta sæti fyrir leikinn byrjuðu leikmenn liðsins af krafti og það varð strax ljóst að Liverpool þyrfti að hafa fyrir sigri. Liverpool fékk þó fyrsta færið á 4. mínútu þegar Joe Gomez sendi fyrir á Sadio Mané en skot hans fór framhjá. Á 13. mínútu átti Liverpool aftur skot sem fór framhjá og nú var Xherdan á ferðinni. Rétt á eftir komst Mohamed í færi eftir frábært spil en markmaður Fulham kom út á móti honum og lokaði á hann við markteiginn. Enn var Mohamed á ferðinni á 21. mínútu eftir að Xherdan sendi á hann en aftur sá markmaðurinn við honum. 

En um miðjan hálfleikinn fékk Fulham upplagt færi. Ryan Sessegnon  slapp þá í einn í gegn en skot hans frá vítateig fór rétt framhjá. Gestirnir færðu sig upp á skaftið og rétt á eftir átti Andre Schurrle fast skot sem Allison Becker náði ekki að halda en hættunni var bægt frá. 

Allt leit út fyrir markalausan fyrri hálfleik þegar miklar sviftingar urðu á 41. mínútu. Það byrjaði á því að Aleksandar Mitrovic skallaði boltann framhjá Alisson eftir fyrirgjöf frá hægri. Línuvörðurinn lyfti flaggi sínu til merkis um ragnstæðu. Alisson tók aukaspyrnuna eldsnöggt og sendi fram á Trent Alexander-Gordon. Hann sá að Mohamed hafði tekið sprett fram fyrir miðlínuna og gaf frábæra sendingu fram á hann. Egyptinn stakk vörn Fulham af, lék inn í vítateiginn og skoraði með öruggu skoti neðst í vinstra hornið. Skjótt skipast veður í lofti og sóknin tók níu sekúndur! 

Leikmenn Fulham voru fokreiðir. Í fyrsta lagi töldu þeir Aleksandar ekki hafa verið rangstæðan og svo vildu þeir meina að Alisson hefði sparkað boltanum af stað þegar hann var á hreyfingu. Erfitt var að sjá til með rangstöðu en líklega var boltinn ekki alveg kyrr þegar Alisson hóf þessa mögnuðu sókn. Markið stóð og þeir Rauðu fögnuðu innilega. Allt í einu höfðu þeir nesti með í leikhléi!

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og á 52. mínútu lék Sadio sig í færi við vítateiginn þaðan sem hann þrumaði að marki en markmaður Fulham sló boltann yfir í horn. Eftir hornið frá hægri barst boltinn yfir til vinstri. Andrew Robertson fékk þar boltann og tók hann viðstöðulaust. Föst sending hans fór beint á Xherdan sem stýrði honum af yfirvegun á lofti í markið. Frábært mark hjá Svisslendingnum!

Það var tíðindalítið eftir þetta og leikmenn Liverpool sigldu góðum sigri örugglega til hafnar. Um leið komst liðið í efsta sæti deildarinnar. Manchester City á þó kost á að ná sætinu aftur ef þeir vinna granna sína seinni partinn. Liverpool gerði þó sitt og vann sinn leik. Um meira er ekki hægt að biðja!


Maður leiksins:  
Xherdan Shaqiri. Svisslendingurinn hefur spilað mun betur en flestir áttu von á þegar hann kom til Liverpool. Hann var duglegur að vanda og var alltaf að reyna að skapa eitthvað. Xherdan innsiglaði svo sigurinn með stórgóðu marki.  

Jürgen Klopp: Við sköpuðum okkur færi, spiluðum boltanum og keyrðum upp hraðann á réttum andartökum. Ég er fullkomlega hamingjusamur.  

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (41. mín.) og Xherdan Shaqiri (53. mín.).

Gult spjald: Joe Gomez. 

Gult spjald: Calum Chambers.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.128.

Fróðleikur

- Mohamed Salah skoraði áttunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Xherdan Shaqiri skoraði sitt annað mark. 

- Í síðustu sex leikjum hefur hann skorað tvö mörk og lagt upp þrjú. 

- Alisson Becker hefur aðeins fengið á sig eitt mark í deildinni á Anfield Road. 

Hér er
viðtal við Jürgen Klopp sem tekið var eftir leik. 
  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan