| Sf. Gutt

Fallegasta markið!


Mohamed Salah fékk í kvöld Puskas verðlaunin fyrir fallegasta markið á síðasta ári. Verðlaunin bera nafn Ungverjans Ferenc Puskas sem var um tíma besti leikmaður í heimi eftir miðja síðustu öld. Þau eru veitt árlega á verðlaunahátíð Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA. Markið sem varð fyrir valinu skoraði Mohamed á móti Everton á Anfield Road í desember á síðasta ári. Hann skoraði þá með glæsilegu bogaskoti upp í fjærhornið í leik sem lauk með jafntefli 1:1. 

Svona var greint frá markinu í leikskýrslu á Liverpool.is. 

,,Þremur mínútum fyrir leikhlé komst Liverpool verðskuldað yfir. Mohamed Salah fékk boltann við hægra vítateigshornið, lék framhjá tveimur varnarmönnum og sendi boltann svo efst í fjárhornið með glæsilegu bogaskoti. Rauðliðar gengu af göflunum af fögnuði. Markið var svo til endurtekning á marki sem Mohamed skoraði í sama markið á móti Southampton fyrir nokkrum vikum." 

Egyptinn gat fengið önnur verðlaun í kvöld. Hann var tilnefndur sem besti leikmaðurinn en þau verðlaun hlaut Króatinn Luka Modric.  1. sæti. Luka Modric - 29.05%. 2. sæti. Cristiano Ronaldo - 19.08%. 3. sæti. Mohamed Salah - 11.23%. Marta frá Brasilíu var kjörinn best í kvennaflokki.

Thibaut Courtois, markmaður Real Madrid, var kosinn besti markmaðurinn. Belginn, sem yfirgaf Chelsea í sumar, var frábær á HM í sumar. 

Didier Deschamps þjálfari heimsmeistara Frakka var kjörinn þjálfari ársins hjá körlum. Reynald Pedros, þjálfari franska liðsins Lyon var valinn besti þjálfari kvennaliðs. Jürgen Klopp var tilnefndur sem þjálfari ársins.   


Úrvalslið FIFA var valið. Það kom nokkuð á óvart að Mohamed fékk ekki sæti í liðinu því hann var jú tilnefndur sem besti leikmaðurinn. Mohamed Salah var tilnefndur í liðið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan