| Grétar Magnússon

Landsleikir

Hér rennum við yfir gengi leikmanna liðsins með landsliðum sínum í þeim leikjum sem fram fóru eftir laugardaginn 8. september.Á sunnudaginn mættust Hollendingar og Frakkar í Frakklandi í Þjóðadeildinni. Virgil van Dijk var fyrirliði Hollendinga og spilaði allan leikinn ásamt Gini Wijnaldum. Frakkar stóðu uppi sem sigurvegarar 2-1 þar sem Kylian Mbappe skoraði fyrsta markið. Gamall leikmaður Liverpool, Ryan Babel, jafnaði metin fyrir Holland en Olivier Giroud skoraði sigurmarkið seint í seinni hálfleik.

Ben Woodburn kom inná sem varamaður á 79. mínútu þegar Wales tapaði á útivelli fyrir Danmörku 2-0 í Þjóðadeildinni. Harry Wilson sat á bekknum allan tímann.

Sadio Mané spilaði með Senegal sem gerði 2-2 jafntefli við Madagaskar á útivelli í undankeppni Afríkumótsins. Eftir leik kom í ljós að einn stuðningsmaður lést í miklum troðningi á leikvanginum og margir aðrir eru illa slasaðir.

Naby Keita og félagar hans í Gíneu spiluðu einnig í undankeppni Afríkumótsins og sigruðu Mið-Afríkulýðveldið 1-0.

U-18 ára lið Englands tók þátt í móti sem bar nafnið Lafarge Foot tournament og stóðu uppi sem sigurvegarar eftir úrslitaleik gegn Frakklandi 2-1. Curtis Jones spilaði mjög vel í leikjum mótsins en áður en að úrslitaleiknum kom unnu Englendingar 3-0 sigra á Hollandi og Rússlandi.

Liam Millar, sóknarmaður U-23 ára liðsins spilaði í 69 mínútur með kanadíska landsliðinu sem vann stórsigur á landsliði Bandarísku Jómfrúaeyja 8-0.


Á mánudaginn var Andy Robertson í eldlínunni með Skotlandi á heimavelli gegn Albaníu í Þjóðadeildinni. Robertson var að sjálfsögðu fyrirliði og fagnaði sínum fyrsta sigri sem slíkur en leikurinn endaði 2-0 þar sem fyrsta markið var sjálfsmark en Steven Naismith skoraði seinna markið.

Rafa Camacho spilaði í 54 mínútur með U-19 ára liði Portúgal sem tapaði fyrir Ítalíu 3-1.

Að lokum eru það svo leikir þriðjudagsins. Byrjum á sigri Englendinga gegn Sviss en leikurinn fór fram á heimavelli Leicester. Trent Alexander-Arnold og Xerdan Shaqiri voru í byrjunarliði þjóða sinna og spilaði sá fyrrnefndi í 78 mínútur en Shaqiri í 80 mínútur. Jordan Henderson kom inná sem varamaður í seinni hálfleik og Joe Gomez sat á varamannabekknum allan tímann. Leiknum lauk með 1-0 sigri Englendinga og skoraði Marcus Rashford eina mark leiksins.

Fyrr um daginn spilaði Dominic Solanke allan leikinn fyrir U-21 árs lið Englendinga þegar þeir komu til baka gegn Lettlandi og sigruðu 2-1 í undankeppni Evrópumótsins.

Kamil Grabara spilaði svo allan leikinn með U-21 árs liði Pólverja sem sigruðu Finna 3-1.

Í nótt mættust svo Brasilía og El Salvador í Brasilíu. Þeir Alisson, Fabinho og Roberto Firmino sátu á varamannabekknum allan tímann og verður það nú að teljast góðar fréttir fréttir að þeir hafi fengið smá hvíld fyrir komandi átök um helgina.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan