| Grétar Magnússon

Bæting í innköstum

Andy Robertson segir að nýi innkastþjálfarinn Thomas Gronnemark hafi nú þegar bætt innköstin hjá sér sem og annara leikmanna.



Gronnemark hóf störf hjá félaginu nýverið eftir að Jürgen Klopp fannst skynsamlegt að nýta þá sérþekkingu sem Daninn býr yfir.

Robertson segir að nú þegar hafi leikmenn bætt sig hvað innköstin varðar.

,,Við erum betur meðvitaðir nú þegar við eigum innkast - allir leikmenn eru í betri stöðum sem við eigum auðveldara með að finna og tækni leikmanna hefur einnig batnað til muna," sagði vinstri bakvörðurinn í viðtali við liverpoolfc.com.

,,Innköst allra voru mæld og mín komu hvað verst út en síðan þessar æfingar byrjuðu markvisst hef ég bætt mig um sennilega sex metra. Við höfum allir tekið þessum leiðbeiningum fagnandi, erum að bæta okkur og meiri nákvæmni er núna í flestum innköstum. Ég held að þetta sé jákvætt og hefur klárlega virkað fyrir okkur."


Klopp hitti Gronnemark í sumar til að fræðast meira um sérfræðiþekkingu á innköstum hans og fékk hann nokkuð snöggt til starfa hjá Liverpool undir þeim formerkjum að aldrei sé hægt að vera með of mikið af sérfræðingum í kringum sig.

Robertson segir að ef þessi vinna hjálpi leikmönnum að bæta sig enn frekar sé augljóst að hún sé þess virði.

,,Stjórinn hefur líklega horft til baka á síðasta tímabil sem var jú mjög gott hjá okkur, að komast í úrslit Meistaradeildar og ná topp fjórum í deildinni. En eitt af því neikvæða sem hann sá var að við töpuðum of oft boltanum þegar við áttum innkast. Þetta er í rauninni eins og sending. Hann hefur horft á þetta og hugsað: ,,Hvernig á ég að breyta þessu?". Hann fékk Gronnemark inn og strax í fyrstu fjórum leikjum okkar hafa innköstin verið mun betri."

,,Það eru oft litlu hlutirnir sem gera mesta muninn."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan