| Grétar Magnússon

Góður sigur í lokaleik Bandaríkjaferðar

Liverpool mætti Manchester United á Michigan leikvanginum í gærkvöldi og stóðu uppi sem sigurvegarar 4-1.

Ljóst var fyrir leik að Jürgen Klopp þyrfti að treysta á unga markverði í leiknum þar sem Loris Karius á við smávægileg meiðsl að stríða.  Kamil Grabara byrjaði leikinn en hann hefur staðið sig vel með yngri liðum félagsins undanfarin tímabil.  Ásamt honum var byrjunarliðið skipað þeim Camacho, Klavan, van Dijk, Moreno, Fabinho, Milner, Lallana, Mané, Salah og Solanke.  Fyrir leik sagði Jose Mourinho stjóri United að þetta væri leikur unglingaliðs hans gegn aðalliði Liverpool sem kom frekar spánskt (eða jafnvel portúgalskt) fyrir sjónir þar sem meðalaldur byrjunarliðs United var hærri en meðalaldur byrjunarliðs Liverpool.


Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega fyrir framan rétt rúmlega 100.000 áhorfendur á leikvanginum og James Milner og Pereira gáfu tóninn með því að berjast harkalega um boltann.  EFtir sex mínútna leik kom fyrsta færi leiksins þegar Camacho tók innkast inná teiginn til Milner sem komst uppað endalínu og sendi boltann fyrir.  Þar var Solanke mættur en hann kom boltanum ekki á markið og hættunni var bægt frá.  Skömmu síðar átti Mané góða sendingu innfyrir á Salah sem skallaði aftur fyrir sig en Grant gerði vel í marki United og sló boltann yfir.  Úr hornspyrnunni skallaði van Dijk boltann á fjærstönginni en Herrera bjargaði með skalla á marklínunni.

Á 28. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins þegar Salah var í baráttunni inná teignum og sparkað var í hann.  Dómarinn dæmdi víti og á punktinn fór Mané og skoraði nokkuð örugglega framhjá Grant.  Forystan lifði hinsvegar ekki lengi því Pereira jafnaði metin með flottu marki beint úr aukaspyrnu af 25 metra færi.  Liverpool voru sterkari eftir þetta en náðu ekki að koma inn marki.  Staðan í hálfleik 1-1.

Klopp gerði fimm breytingar í hálfleik, inná komu þeir Phillips, Woodburn, Kelleher í markið, Ojo og Shaqiri í sínum fyrsta leik fyrir félagið eftir skiptin frá Stoke fyrr í sumar.  Seinni hálfleikur var nánast eign Liverpool og næsta mark kom á 65. mínútu þegar Shaqiri komst inná teiginn, tók boltann vel niður og lagði hann fyrir Sturridge sem var nýkominn inná.  Sturridge sendi boltann rakleitt í fjærhornið og fagnaði vel með nýja liðsfélaga sínum.  Átta mínútum síðar var dæmd önnur vítaspyrna þegar Robertson var felldur í teignum.  Sheyi Ojo skellti sér á punktinn og skoraði örugglega úr vítinu.

Eina almennilega færi United kom þegar Alexis Sanchez var að komast í gott skotfæri en hinn ungi Phillips átti góða tæklingu og bjargaði vel.  Skömmu fyrir leikslok kom svo flottasta mark leiksins.  Woodburn fékk boltann út við endalínu vinstra megin og sendi fyrir markið háa sendingu.  Þar var Shaqiri mættur og hann þrumaði boltanum í netið með glæsilegri hjólhestaspyrnu.  Ekki slæmt að byrja ferilinn á því hjá Liverpool.  Markinu var vel fagnað og lokatölur voru 4-1 fyrir Liverpool.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan