| Sf. Gutt

Frakkar heimsmeistarar!


Frakkar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu eftir 4:2 sigur á Króatíu í fjörugum leik í Moskvu. Dejan Lovren fékk því silfur en ekki gull. 

Króatar byrjuðu betur en voru óheppnir að lenda undir, á 18. mínútu, þegar aukaspyrna fór í markið af höfuði Mario Mandžukic. Króatar gáfu það ekki eftir og 11 mínútum seinna jafnaði Ivan Perišic  eftir góða sókn. En elti ólánið Króata á 38. mínútu þegar Ivan fékk boltann í hendina og dæmd var vítaspyrna. Antoine Griezmann skoraði úr henni. Króatar voru mjög ósáttir við dóminn sem var úrskurðaður í sjónvarpi. Þótti mörgum ekki rétt dæmt. 

Króatar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti en það voru Frakkar sem skoruðu. Fyrst Paul Pobga á 59. mínútu og svo Kylian Mbappé sex mínútum seinna. Allt í einu var forysta Frakka þrjú mörk og það heldur gegn gangi leiksins. Króatar komust aftur inn í leikinn þegar Mario bætti fyrir sjálfsmarkið á 69. mínútu eftir mikil mistök markmanns Frakka. Króatar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn frekar en allt kom fyrir ekki og Frakkar fögnuðu heimsmeistaratitlinum í grenjandi rigningu.

Dejan Lovren átti býsna góðan leik en mátti sætta sig við silfur. Hann var fimmti leikmaður Liverpool til að spila til úrslita á HM. Tveir, Roger Hunt og Fernando Torres, hafa fengið gull. Dietmar Hamann, Dirk Kuyt og nú Dejan hafa tapað úrslitaleikjum.

Það er svo sem ekki hægt að segja að Frakkar hafi ekki verðskuldað að vinna HM. Liðið er sterkt og vel mannað. Ekki er þó hægt að neita því að heppnin var með þeim í úrslitaleiknum. Króatía er með frábært lið og vann hug og hjörtu margra. Dejan lék frábærlega á mótinu.

Frakkland: Hugo Lloris, Benjamin Pavard, Raphaël Varane, Samuel Umtiti, Lucas Hernández, Kylian Mbappé, Paul Pogba, Antoine Griezmann, N'Golo Kanté (Steven Nzonzi 54. mín.), Blaise Matuidi (Corentin Tolisso 73. mín.) og Olivier Giroud (Nabil Fekir 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Steve Mandanda (M), Alphonse Areola (M), Presnel Kimpembe, Thomas Lemar, Ousmane Dembélé, Adil Rami, Djibril Sidibé, Florian Thauvin og Benjamin Mendy.

Mörk Frakkalands: 
Mario Mandžukic, sm, (18. mín.), Antoine Griezmann, víti, (38. mín.), Paul Pogba (59. mín.) og Kylian Mbappé (65. mín.).

Króatía: Danijel Subašic, Šime Vrsaljko, Dejan Lovren, Domagoj Vida, Ivan Strinic (Marko Pjaca 82. mín.), Ivan Perišic, Marcelo Brozovic, Luka Modric, Ivan Rakitic, Ante Rebic (Andrej Kramaric 71. mín.) og Mario Mandžukic. Ónotaðir varamenn: Dominik Livakovic (M), Nikola Kalinic (M), Vedran Corluka, Mateo Kovacic, Lovre Kalinic, Tin Jedvaj, Filip Bradaric, Duje Caleta-Car, Milan Badelj og Josip Pivaric.

Mörk Króatíu: 
Ivan Perišic (29. mín.) og Mario Mandžukic (69. mín.).

Áhorfendur á Luzniki leikvanginum: 
78.011.

Belgía fékk bronsverðlaun eftir 2:0 sigri á Englendingum. Thomas Meunier og Eden Hazard skoruðu mörkin. Fulltrúar Liverpool í liðunum, Simon Mignolet, Jordan Henderson og Trent Alexander-Arnold komu ekki við sögu í leiknum. Simon fær þó bronsverðlaun.  

Fróðleikur

- Frakkland varð heimsmeistari í annað sinn. 

- Í fyrra skiptið unnu þeir 1998.

- Didier Deschamps  þjálfari Frakka var fyrirliði þegar Frakkland varð heimsmeistari fyrir 20 árum.

- Hann er þriðji maðurinn til að vinna HM sem leikmaður og þjálfari. 

- Brasilía hefur fimm sinnum unnið heimsmeistaratitilinn. Svo koma Þjóðverjar og Ítalir með fjóra sigra.

- Luca Modric var kjörinn besti leikmaður HM 2018.

- Harry Kane varð markakóngur með sex mörk.

- Thibaut Courtois var valinn besti markmaðurinn. 

- Kylian Mbappé var kosinn besti ungliðinn.

- Liverpool átti átta leikmenn á HM í Rússlandi. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan