| Sf. Gutt

Af HM


Átta liða úrslitum á HM lauk í gær. Nú eru aðeins fjórar þjóðir eftir og undanúrslit framundan. Í þeim mætast Belgar og Frakkar og svo Englendingar og Króatar. 

Frakkar komust fyrst í undanúrslit eftir 2:0 sigur á Úrúgvæ. Luis Suarez fyrrum leikmaður Liverpool var í liði Úrúgvæ. Sebastian Coates var varamaður. Raphael Varane og Antoine Griezmann skoruðu. 

Belgar höfðu svo betur á móti Brasilíu og unnu 2:1. Fernandinho skoraði sjálfsmark og svo bætti Kevin de Bruyne við marki. Roberto Firmino kom inn á sem varamaður. Renato Augusto lagaði stöðuna fyrir Brasilíu en allt kom fyrir ekki. Simon Mignolet var varamaður.   

England vann Svíþjóð 2:0. Harry Maguire, varnarmaður Leicester City, og Dele Alli miðjumaður Tottenham Hotspur skoruðu mörkin. Bæði voru skoruð með skalla. Jordan Hernderson var stórgóður á miðjunni hjá enska liðinu og töldu sumir sparkspekingar hann hafa verið besta leikmann enska liðsins. Trent Alexander-Arnold var á bekknum. 

Króatar náðu síðasta sætinu í undanúrslitunum eftir mikla rimmu við heimamenn. Rússar komust yfir með marki Denis Cheryshev en Andrej Kramaric jafnaði. Domagoj Vida  kom Króatíu yfir í framlengingu en Mario Fernandes jafnaði þegar stutt var eftir af henni. Það þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni. Króatar unnu hana 4:3. Dejan Lovren var í liði Króata og stóð sig vel.

Dejan Lovren, Jordan Henderson, Trent Alexander-Arnold og Simon Mignolet geta orðið heimsmeistarar en Roberto Firmino er kominn í sumarfrí. 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan