| Sf. Gutt

Af HM


Nú eru tvær umferðir að baki í riðlakeppni Heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi. Fulltrúar Liverpool hafa staðið fyrir sínu í vörn, sókn og á miðjunni!

Jordan Henderson hefur spilað báða leiki Englands hingað til og spilað mjög vel. Enskir höfðu nauman 2:1 sigur á Túnis í fyrsta leik og í dag bætti enska liðið landsmet í úrslitakeppni HM með 6:1 sigri á Panama. Reyndar er þetta stærsti sigur Englands í úrslitakeppni á stórmóti. Trent Alexander-Arnold hefur ekki komið við sögu. Harry Kane, fyrirliði Englands, skoraði bæði mörkin á móti Túnis og bætti um betur á móti Panama með þrennu. 

Enska liðið er komið upp úr sínum riðli. Sama má segja um Belga sem hafa unnið sína leiki. Simon Mignolet hefur verið varamaður í þeim. 


Dejan Lovren er búinn að vera grjótharður í vörn Króata sem hafa tryggt sig upp úr sínum riðli. Króatar unnu fyrst Nígeríu 2:0 og svo glæsilegan 3:0 sigur á Argentínu. Króatía mætir Íslandi í síðustu umferð og í þeim leik ræðst hvort Ísland kemst áfram. 

Roberto Firmino hefur komið inn á báðum leikjum Brasilíumanna. Fyrst þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Sviss og svo í 2:0 sigri á Kosta Ríka. Philippe Coutinho, fyrrum leikmaður Liverpool, skoraði í báðum leikjunum. Roberto hefur þótt koma mjög sterkur inn í báða leikina. 

Mohamed Salah kom ekki við sögu í fyrsta leik Egypta þegar þeir töpuðu 1:0 fyrir Úrúgvæ. Hann var orðinn leikfær í öðrum leik þegar Egyptar mættu Rússum. Heimamenn unnu 3:1 sigur og tryggðu áframhald sitt. Mohamed skoraði mark Egypta úr vítaspyrnu. 


Sadio Mané var fyrirliði Senegal á móti Pólverjum og Japan. Senegal byrjaði á 2:1 sigri á Pólverjum. Í dag skoraði Sadio fyrsta mark leiksins á móti Japan. Leikurinn endaði 2:2. Sadio var valinn Maður leiksins.

Marko Grujic hefur ekki komið við sögu hjá Serbum. Þeir unnu Kosta Ríka 1:0 í fyrsta leik en töpuðu svo 2:1 fyrir Sviss.

Þriðja og síðasta umferð riðlakeppninnar hefst á morgun.





 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan