| Grétar Magnússon

Fyrstu kaup sumarsins staðfest !

Liverpool hefur keypt brasilíska miðjumanninn Fabinho frá franska félaginu Mónakó en opinber heimasíða félagsins staðfesti þetta nú rétt í þessu.


Kaupin koma svo sannarlega á óvart þar sem ekki nokkur miðill hafði skrifað frétt um þetta eftir því sem næst verður komist og Fabinho hefur svo sannarlega ekki verið orðaður við félagið eftir að félagaskiptaglugginn opnaði fyrr í maímánuði.

Fabinho hefur skrifað undir samning við félagið og formlega verður gengið frá félagaskiptunum þann 1. júlí næstkomandi.

Hann hafði þetta að segja í sínu fyrsta viðtali:  ,,Þetta er eitthvað sem ég hef alltaf viljað - þetta er risalið.  Allt innra skipulag félagsins lítur stórkostlega vel út."

,,Þegar félag af þessari stærðargráðu leitar eftir því að fá mig þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um.  Ég mun reyna að skapa mína eigin sögu hér.  Vonandi, hvað mig persónulega varðar, hef ég fulla getu og trú á sjálfum mér til að vinna titla með þessu félagi."

,,Ég mun reyna að vaxa og læra til að bæta mig og verða hluti af sögu félagsins."

Fabinho hefur spilað fjóra landsleiki fyrir Brasilíu og er auðvitað fyrstu kaup félagsins þetta sumarið.  Hann er 24 ára gamall og spilaði alls 225 leiki fyrir Mónakó á ferli sínum þar.  Alls skoraði hann 29 mörk fyrir félagið þau fimm tímabil sem hann lék þar.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan