| Grétar Magnússon

Fréttir af meiðslum

Leikmannahópur Liverpool má varla við neinum skakkaföllum nú þegar tímabilið er að klárast og mikið undir.  En það bárust ágætar fréttir af þeim Joe Gomez og Dejan Lovren í dag.


Lovren fór af leikvelli gegn Bournemouth og augljóst var að hann óskaði eftir þeirri skiptingu sjálfur.  Þar sem Joel Matip spilar ekki meir á tímabilinu er miðvarðastaðan frekar tæp með Ragnar Klavan sem eina leikfæra miðvörðinn fyrir utan þá Lovren og van Dijk.  En meiðsli Lovren eru ekki alvarleg og munu ekki halda honum frá æfingu eða keppni næstu daga eða vikur.  Hann ætti því að vera klár í slaginn gegn W.B.A. um næstu helgi.  Það gæti þó alveg verið að hann fái hvíld í þeim leik til að undirbúa sig betur fyrir baráttuna við Rómverja.

Joe Gomez hefur verið frá vegna meiðsla undanfarnar fjórar vikur en hann gæti hafið æfingar að fullu í vikunni.  Læknateymi félagsins mun taka stöðuna á honum í dag og fastlega er búist við því að hann fái leyfi til að æfa eins og vant er.  Leikurinn um næstu helgi gæti þó komið of fljótt fyrir Gomez en að öllum líkindum verður hann til taks í leikmannahópnum fyrir fyrri leikinn við Roma þriðjudaginn 24. apríl.

Að lokum má svo geta þess að Adam Lallana hélt til Suður-Afríku nýlega til að fá meðferð við sínum meiðslum.  Miðjumaðurinn gæti náð lokaleikjum tímabilsins ef allt gengur upp og hann sjálfur er einnig að hugsa um HM í Rússlandi í sumar.  Við sjáum til hvað kemur út úr þeirri ferð en vonandi sjáum við hann sparka bolta í Liverpool búningi áður en tímabilið klárast.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan