| Sf. Gutt

Roberto Firmino ekki ákærður

Í bikarleik Liverpool og Everton í byrjun ársins átti umdeilt atvik sér stað. Í kjölfarið rannsakaði Enska knattspyrnusambandið málið. 

Þannig var mál með vexti að Mason Holgate leikmaður Everton hrinti Roberto Firmino upp í stúku. Þetta var svínslega gert hjá honum því hann kom aftan að Roberto og hann því algjörlega óviðbúinn. Sem betur fer varð Brasilíumaðurinn ekki fyrir meiðslum og ekki heldur áhorfendur sem fengu hann í fangið.

Roberto brást að vonum illa við en liðsfélagar þeirra komu í veg fyrir handalögmál. Í kjölfarið ásakaði Mason Roberto fyrir að hafa haft niðrandi orð um sig sem hann vildi meina að hefðu verið kynþáttaníð. Roberto neitaði öllum ásökunum. 

Enska knattspyrnusambandið rannsakaði málið og niðurstaðan var sú að Roberto var ekki ákærður enda kom ekkert fram um að hann hefði sagt eitt eða neitt sem flokka mætti sem kynþáttaníð. Voru þó tekin viðtöl við 12 leikmenn, dómara leiksins og aðstoðarmenn hans. Eins var fenginn til ráðgjafar sérfræðingur í portúgölsku. 

Roberto Firmino sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði málið hafa verið sér erfitt enda sakaður um athæfi sem hann hafði ekki átt þátt í. Hann endaði yfirlýsingu sína með þessum orðum. ,,Mismunun á ekki að eiga sér stað á knattspyrnuvelli og reyndar hvergi ef út í það er farið."

Það má á hinn bóginn spyrja sig af hverju Enska knattspyrnusambandið skuli ekki ákæra Mason Holgate? Það hlýtur að teljast alvarlegt mál að knattspyrnumaður skuli ákæra annan leikmann um jafn alvarlegan hlut og kynþáttníð sem svo kemur í ljós að enginn fótur var fyrir. Svo hefði auðvitað átt að setja Mason í bann fyrir að bakhrindinguna sem dómari leiksins lét átölulausa. Stórfurðulegt!


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan