| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Eftir að hafa lokið því mikilvæga verkefni að tryggja sæti í riðkakeppni Meistaradeildarinnar er komið að síðasta deildarleik fyrir landsleikjahlé. Liverpool hefur fjögur stig af sex mögulegum sem er þokkalegt þó mikið vilji meira. Reyndar ættu stigin að vera sex en jöfnunarmark Watford í fyrstu umferð hefði aldrei átt að standa. En sjö stig eftir þrjá leiki væri viðunandi. Til þess þarf að vinna Arsenal á Anfield Road á morgun.Arsenal vann fyrstu umferð en tapaði svo í annarri umferð í Stoke. Bikarmeistararnir hafa verið gagnrýndir síðustu mánuði og Arsene Wenger átti ekki sjö dagana sæla á seinni hluta síðustu leiktíðar. Hann stóð þó uppi með bikar eftir að Arsenal vann FA bikarinn eftir magnaðan sigur á Chelsea og bætti svo Samfélagsskildinum við í byrjun mánaðarins og aftur lá Chelsea í valnum á Wembley. Samt eru gagnrýnendur liðsins ekki ánægðir og sumir stuðningsmanna liðsins eru sannarlega búnir að fá nóg. Þeim finnst að tími Arsene sé liðinn og hann eigi að víkja. Arsene á þrátt fyrir allt þrjá sigra í FA bikarnum og þrjá Skjaldarsigra á afrekaskránni síðustu fjörar leitkíðir. Ég myndi vera ánægður með þá titla á Anfield!


Sannfærandi sigur Liverpool á Hoffenheim á miðvikudagskvöldið tryggði sæti í riðlakeppni Meistarardeildarinnar eins og nauðsynlega þurfti. Liverpool lék frábærlega og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Samt fólust veikleikamerki í að fá tvö mörk á sig. En sóknarleikurinn var magnaður og þegar upp var staðið sýndi Liverpool sannfærandi leiki á móti þýska liðinu. Var þýska liðið kannski ekki svo gott?

Enn heldur sagan um Philippe Coutinho áfram. Liverpool ætlar ekki að selja og þremur ef ekki fjórum tilboðum Barcelona hefur verið hafnað. Ekkert hefur heyrst frá honum sjálfum en hann langar örugglega til Spánar. En það er ekki í boði af hálfu forráðamanna Liverpool. Jürgen Klopp segir að ekkert sé í veginum fyrir því að Philippe komi aftur inn í liðshópinn þegar hann er orðinn hress. Philippe hefur verið meiddur og svo veikur eða bæði síðustu vikur en samt var hann valinn í brasilíska landsliðið. Skyldi hann spila með því? Það lokast fljótlega fyrir kaup og sölur leikmanna og stuðningsmenn Liverpool hafa ekki verið alveg sáttir við að ekki hafi verið fjárfest meira en Jürgen segist ánægður með þá leikmenn sem hann hefur fengið. Hann hefur sagt að það sé ekki tilgangur í að kaupa einhverja og einhverja fyrst þeir sem hann vill helst eru ekki í boði. Er það rétt viðhorf? 

Liverpool vann sannfærandi 3:1 sigur á Arsenal á Anfield fyrr á árinu. Ég spái því að Liverpool endurtaki leikinn. Það verður þó lykilatriði fyrir Liverpool að komast yfir. Skytturnar eiga það til að missa móðinn þegar þær fá alvöru mótspyrnu og ég á von á því að leikmenn Liverpool verði vel stemmdir á morgun. Sadio Mané, Roberto Firmino og Daniel Sturridge skora. Sjö stig af níu er ekki sem verst. Eða hvað?

YNWA!TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan