| Grétar Magnússon

Alexander-Arnold skrifar undir nýjan samning

Hinn 18 ára gamli og efnilegi leikmaður Trent Alexander-Arnold hefur skrifað undir nýjan langtíma samning við félagið.

Alexander-Arnold er mættur til æfinga á ný ásamt mörgum liðsfélögum sínum og byrjaði undirbúningstímabilið á ánægjulegan máta.  Samningurinn er til næstu fimm ára.


Hann fékk nokkur tækifæri undir stjórn Jürgen Klopp á síðasta tímabili og þótti standa sig vel, margir muna t.d. eftir því þegar hann var settur í byrjunarliðið á útivelli gegn Manchester United í janúar.  Nathaniel Clyne átti við smávægileg meiðsli að stríða og Alexander-Arnold leysti hægri bakvarðastöðuna mjög vel í þeim leik en það var í fyrsta sinn sem hann var í byrjunarliði í Úrvalsdeildinni.

Alls kom hann við sögu í 13 leikjum á tímabilinu, átta í deildinni, tveimur í FA bikarnum og þremur leikjum í Deildarbikarnum en þar spilaði hann sinn fyrsta leik fyrir félagið í 2-1 sigri á Tottenham.

Alexander-Arnold hafði þetta að segja við undirskriftina:  ,,Þetta er spennandi og ánægjuleg stund fyrir mig og fjölskyldu mína.  Ég er spenntur fyrir vonandi ánægjulegum tíma sem er framundan."

,,En ég hef sagt það áður að erfiðisvinnan er alls ekki búin.  Þetta er bara byrjunin.  Vonandi verða fleiri gleðistundir eins og á síðasta tímabili á næstu tímabilum.  Ég get ekki tekið neinu sem sjálfsögðum hlut, ég hef fengið gott tækifæri í þeirri stöðu sem ég er núna.  Ég mun reyna að nýta hvern einasta dag sem mest ég get og bæta mig."

,,Maður má aldrei verða of góður með sig þar sem maður er.  Það er alltaf hægt að bæta sig og það er í raun aldrei gott að vera of ánægður með stöðuna sem maður er í hverju sinni, maður verður alltaf að reyna að gera betur", bætti hann við.

,,Það er auðvitað hægt að gleðjast þegar vel gengur en maður má ekki gleyma sér í því í nokkrar vikur eða mánuði.  Maður verður að setja undir sig hausinn og halda áfram að leggja hart að sér.  Það er það sem ég mun gera núna, ég mæti aftur til æfinga, legg hart að mér og reyni að berjast fyrir sæti mínu í liðinu."

Jürgen Klopp var að sjálfsögðu ánægður með nýja samninginn við Alexander-Arnold og sagði:  ,,Það eru stórkostlegar fréttir að félagið hefur verðlaunað hann fyrir framför sína.  Ég held að viðhorf okkar til ungra leikmanna sé nokkuð skýrt, ef þeir vinna í sínu þá geta þeir verið vissir um að félagið gerir vel við þá í nútíð sem og framtíð."

,,Trent og fólkið sem hann er með í kringum sig í lífi sínu - persónulega og knattspyrnulega - taka virkilega góðar ákvarðanir.  Mér líkar það mjög vel hversu auðmjúkur hann er en jafnframt hefur hann svo metnaðarfullur.  Það er frábær blanda."

,,Félagið hefur gert öllum ungum leikmönnum það ljóst að þegar þeir vaxa og bæta sig munum við gera vel við þá.  Þetta er gott dæmi um það.  Við bjóðum þeim tækifæri sem er lykillinn að því hvað við stöndum fyrir, en við bjóðum þeim einnig uppá það að þeir fái að njóta ávaxta erfiðis síns.  Trent hefur svo sannarlega unnið sér inn fyrir þessum nýja samning."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan