| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Eftir tvo harðsótta útisigra á erfiðum útvöllum er komið að heimaleik á móti einu þeirra liða sem eru í fallslagnum. Margir áttu von á því að Liverpool myndi ekki ná að vinna útisigra á móti Stoke City og West Brtomwich Albion en það tókst með harðfylgi og staðfestu.


Nú kemur Crystal Palace í heimsókn á Anfield og liðið hefur unnið í tveimur síðustu heimsóknum sínum þangað. Ljóst er að ekkert má út af bera. Í síðasta leik á Anfield fór Liverpool illa að ráði sínu gegn liði í neðri hluta deildarinnar en þá missti Liverpool forystu niður í jafntefli á móti Bournemouth. Þetta hefur of oft borið við og nú verður liðið að halda einbeitingu. Liverpool þarf á öllum stigum að halda ef liðið á að geta varið sæti sitt á meðal fjögurra efstu liða deildarinnar.



Crystal Palace er í fallhættu þó önnur lið séu verr stödd. Liðið hefur þó verið í mjög góðu formi síðustu vikur en Sam Allardyce sem hóf leiktíðina sem landsliðsþjálfari, en henti því starfi frá sér með ótrúlega vanhugsuðum hætti, hefur komið liðinu til betri vegar eftir að hann tók við af Alan Pardew. Liðið hefur reyndar þótt leika mun betur eftir að Mamadou Sakho kom til þess sem lánsmaður frá Liverpool í byrjun árs og vörnin hefur verið mun betri en áður. Hann má auðvitað ekki spila með á Anfield og vonandi verður ekki jafn gott lag á liðinu fyrir bragðið. En ætti Mamadou að fá að spila með Liverpool á nýjan leik eftir að hafa spilað svona vel með Palace? Svar við þeirri spurningu ætti að fást í sumar.


Liverpool þarf að halda áfram á sömu braut og á móti Stoke og WBA. Leikmenn verða að vera einbeittir og berjast eins og ljón. Óvíst er hvort Lucas Leiva, Joel Matip, Ragnar Klavan og Daniel Sturridge geti spilað með vegna meiðsla. Sadio Mané, Jordan Henderson og Adam Lallana eru frá eins og síðustu vikurnar. Sadio og Jordan spila ekki meira á leiktíðinni en Adam er farinn að æfa eftir meiðsli. Það reynir því á liðshópinn og hann er ekki stór.

 

Ég spái því að Liverpool vinni þriðja deildarleik sinn í röð. Sigurinn verður harðsóttur en þeir Divock Origi og Roberto Firmino tryggja Liverpool 2:0 sigur.

YNWA!

 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan