| Heimir Eyvindarson

Jafntefli á Etihad

Liverpool gerði jafntefli við Manchester City á Etihad í miklum hasarleik i dag. Fullt af færum á báða bóga og fullt af vafasömum atriðum út um allan völl. 

Það hellirigndi í fyrri hálfleik í Manchester og það hafði sín áhrif á leikinn, boltinn spýttist út um allt og leikmenn áttu í dálitlum erfiðleikum með tæklingar. Michael Oliver dómari mátti þó eiga það að hann leyfði leiknum að fljóta nokkuð vel og hafði spjöldin að mestu í vasanum, þótt oft hefði verið tilefni til að veifa þeim. 

Það var líf og fjör í leiknum allt frá fyrstu mínútu en það var þó ekki fyrr en á 20. mínútu að almennilegt færi leit dagsins ljós. Það átti David Silva en hann skaut framhjá samskeytunum af stuttu færi, eftir að boltinn barst nokkuð óvænt til hans. Spánverjinn hefði getað gert betur, en gerði það til allrar hamingju ekki. 

Á 24. mínútu hefði Oliver getað dæmt víti þegar Otamendi virtist brjóta á Mané inn í teig, en snertingin var ekki mikil og það hefði kannski verið strangur dómur. Aðdragandinn að atvikinu var glæsilegur hjá Mané, en hann stakk sér inn fyrir vörn City og komst einn á móti Caballero, sem spilaði í dag sinn fyrsta Úrvalsdeildarleik. Caballero gerði hins vegar vel og varði frekar máttlaust skot Mané, sem var eins og áður segir truflaður af Otamendi. 

Á 35. mínútu Coutinho ágætt skot yfir markið, en hann kom sér í gott færi við vítateigshornið - og hefði einhverntíma gert betur í þessari stöðu. Á 39. mínútu hefði City síðan átt að fá víti þegar Milner tók Sterling niður í teignum, en sem betur fer sá Oliver ekki brotið. Liverpool rauk í sókn og Firmino náði fínu skoti sem Caballero varði vel. 

Á lokamínútum hálfleiksins gekk talsvert á, Lallana og Matip áttu báðir ágætar marktilraunir og City menn voru einnig aðgangsharðir en allt kom fyrir ekki og staðan markalaus í hálfleik. 

Hafi fyrri hálfleikur verið fjörugur veit ég ekki hvaða orð á að nota yfir seinni hálfleikinn. Strax í upphafi fór allt á fljúgandi ferð og Mané var óheppinn að skora ekki eftir tveggja mínútna leik. Á 50. mínútu dæmdi Oliver svo víti þegar Clichy braut á Firmino í teignum eftir látlausa sókn Liverpool. James Milner fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Klopp horfði að vanda uppí stúku á meðan. Staðan 0-1 á Etihad og fögnuður okkar manna gríðarlegur.

Næstu mínúturnar var Liverpool sterkara liðið á vellinum, en náði ekki að búa til nógu mikið af færum. Firmino fékk þó ansi gott færi, en lét Caballero verja frá sér og það var heilmikið líf út um allan völl. Klopp sagði í viðtali eftir leik að það hefði verið svekkjandi að nýta ekki þennan 15-20 mínútna kafla betur og klára leikinn. 

Á 69. mínútu jafnaði svo Aguero fyrir City eftir frábæra sendingu frá De Bruyne og kannski ekki alveg nógu góðan varnarleik Milner og Klavan. En bæði sendingin og afgreiðslan voru í heimsklassa. Staðan 1-1.

Á 77. mínútu var mikill atgangur í teignum hjá Liverpool sem endaði með því að De Bruyne skaut í stöng. Liverpool stálheppið að lenda ekki undir. Á 80. mínútu fékk Lallana svo langbesta færi leiksins þegar Firmino sendi á hann þar sem hann stóð aleinn á markteigslínunni með allan tímann í heiminum til að leggja boltann í netið, eða því sem næst. Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst honum að kiksa algjörlega og Caballero átti ekki í neinum erfiðleikum með að hirða boltann. Svakaleg óheppni. Lallana bað Klopp og liðsfélagana afsökunar á klúðrinu eftir leik og uppskar knús frá Klopp. Svona er fótboltinn stundum hrikalega svekkjandi. Hefði verið sætt að ná marki þarna. 

Niðurstaðan á Etihad 1-1 jafntefli í stórskemmtilegum leik. Bæði lið geta held ég vel við unað og varla hægt að segja annað en að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit. 

Manchester City: Caballero, Clichy, Otamendi, Fernandinho, Stones, Toure (Sagna á 66. mín.), De Bruyne, Sterling, Sane (Fernando á 83. mín.), Silva, Aguero. Ónotaðir varamenn: Bravo, Kolarov, Garcia, Iheanacho, Nolito. 

Mark City: Sergio Aguero á 69. mín.

Gul spjöld: Toure, Silva, Clichy.

Liverpool: Mignolet, Clyne, Matip, Klavan, Milner, Can, Wijnaldum, Lallana, Mané, Coutinho (Origi á 73. mín.), Firmino (Lucas á 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Moreno, Woodburn, Lovren, Alexander-Arnold.

Mark Liverpool: Milner úr víti á 51. mín.

Gul spjöld: Matip, Mané, Firmino. 

Áhorfendur á Etihad: 54.449.

Maður leiksins: Mér fannst Can mjög góður í leiknum og kannski mikilvægasti leikmaður Liverpool í dag. Eins var Mané frábær fram á við og sá leikmaður sem skapaði langmesta hættu. Ég get ekki gert upp á milli þeirra tveggja, frábær leikur hjá báðum. Annars var Liverpool liðið meira og minna gott í dag og lítið hægt að kvarta yfir frammistöðu einstakra leikmanna.

Jurgen Klopp: „Þetta var skemmtilegur leikur. Fullt af færum og fullt af vafaatriðum. Það hefðu bæði lið getað farið með sigur af hólmi í dag. Bæði lið fengu frábær færi sem ekki nýttust. Í augnablikinu er ég svekktur með að við skyldum ekki vinna leikinn því við hefðum svo sannarlega getað gert það, sérstaklega á 15-20 mínútna kafla í seinni hálfleik þar sem við vorum mun sterkara liðið. En talaðu við mig eftir nokkra klukkutíma þá verð ég búinn að róa mig og orðinn hamingjusamur með frammistöðu liðsins." 

Fróðleikur: 

-Liverpool er enn taplaust gegn liðum í efri helmingi Úrvalsdeildarinnar.

-Michael Oliver hefur dæmt 12 víti í Úrvalsdeildinni í vetur, flest allra dómara. Hann hefði svo sannarlega getað bent á punktinn nokkrum sinnum til viðbótar í dag. 

-Hér má lesa viðtal við við Klopp af Liverpoolfc.com 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af sömu síðu  TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan